Uppskrift: syndsamlega ljúffeng sellerírótarmús sem enginn stenst

Sjöfn Þórðar fjölmiðlakona og sælkeri með meiru er iðin við að halda matarboð og hefur einstaklega gaman að því að bjóða upp á ljúffengt meðlæti og frumlega samsetningar sem heilla gestina upp úr skónum. Galdurinn við að framreiða ljúffengan kvöldverð er að vera með skothelt meðlæti sem matargestirnir missa sig yfir. Enn betra er að vera með meðlæti sem er hollt og allra meina bót. „Til dæmis þegar ég elda andalæri á franska vísu er þessi sellerírótamús ómissandi og setur punktinn yfir i-ð. Hún er líka einstaklega góð með sjávarfangi eins og humar og hörpudiski.“   Uppskriftin er einföld og þægileg og hráefnið fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.

Sellerírótarmús að hætti Sjafnar

1 stk. sellerírót, afhýdd og skorin í teninga

2 stk. laukar, saxaðir

ólífuolía

gróft salt (ég nota Himalaya saltflögur) og hvítur pipar

2 dl rjómi 

Afhýðið sellerrótina og skerið í teninga. Afhýðið laukana og saxið. Steikið sellerírótarteningana og laukin upp úr smá ólífuolíu á pönnu og kryddið til með grófu salti og hvítum pipar. Hellið rjómanum út á sjóðið þangað til að sellerírótin er orðin mjúk. Bætið meiri rjóma saman við ef ykkur finnst þess þurfa. Setjið blönduna síðan í matvinnsluvél og maukið. Músin á að vera meðal þykk og með fallegri áferð.  Smakkið til með salti og pipar.

Sellerírótamúsin er ljúffeng sem meðlæti með mörgum réttum, til dæmis með andalæri, andabringu, dumplings, steiktum þorskhnakka, túnfisk steik, hörpudiski og humri.

Verði ykkur að góðu.