Syndsamlega ljúffeng marengsterta með rósum, hindberjum og súkkulaði

Flest okkar höldum við í ákveðnar hefðir og siði þegar kemur hátíðisdögum eins og páskum, jólum, sumardeginum fyrsta og svo lengi mæti telja. Sjöfn Þórðar heldur áfram að heimsækja sælkera og fagurkera sem njóta þess að halda í góða siði og venjur og líka að búa  til nýjar hefðir fyrir næstu kynslóðir. Að þessu sinni heimsækir hún Málfríði Gylfadóttur Blöndal, sem er eigandi kaffihússins Norðurbakkans í Hafnarfirði.

\"\"

 

Kaffihúsið Norðurbakkinn er rómað fyrir ljúffengar kræsingar, hlýlega stemningu og að vera bókakaffihús. Á Instagramsíðu kaffihússins má iðulega sjá myndir af freistandi bakkelsi og hnallþórum sem kitla bragðlaukana. Gaman er að segja frá því að Málfríður eða Fríða eins og hún er ávallt kölluð, er íslenskukennari að mennt og má með sanni segja að keim af kennaranum megi finna á Norðurbakkanum því þar skipa bækur stóran sess. Fríða á tvær dætur, Guðrúnu Ylfu og Maríu Rún og býr á einum fallegasta staðnum í Hafnarfirði, við Lækinn.

\"\"

Segðu okkur Fríða, hvar færðu innblásturinn að þeim kræsingum og dagskrá sem þú býður uppá á Norðurbakkanum?

„Ég er ættuð af Snæfellsnesinu, Ólafsvík og fæ minn kraft frá Jöklinum, Snæfellsjökli. Það var aldrei spurning að kaffihúsið yrði svokallað bókakaffi, þar sem bækur hafa alltaf skipað stóran sess í lífi mínu og eiga þær mikinn þátt  í að skapa notalega stemningu á Norðurbakkanum. Við höldum reglulega bókakvöld, þar sem lesið er upp úr bókum og ljóðskáld flytja falleg ljóð á vetrarkvöldum. Við erum með gamlar bækur til sölu og einnig eitthvað smávegis af ljóða- og barnabókum.“

Hvað er eftirminnilegast við páskahátíðina í bernsku þinni?

„Það sem er eftirminnilegast við páskahátíðina í æsku minni eru rólegheit og yfirvegun. Það var einhvern veginn alltaf svo mikill hátíðarbragur á þessum dögum. Auðvitað var föstudagurinn langi dagurinn sem rólegastur var og var hann lengi að líða í minningunni þar sem ekkert mátti gera sér til dægrastyttingar og núna reyni ég að halda þá hefð og hef að sjálfsögðu lokað á kaffihúsinu bæði þá og á páskadag. Við vorum ötul að sækja messur yfir hátíðina í Ólafsvík og fórum þá stundum klukkan átta á páskadagsmorgun og svo var morgunmatur á eftir. Mér finnst yndislegt að mæta í messu hér í Hafnarfjarðarkirkju á páskadag – ekki síst þegar veðrið er fallegt og allt er orðið svo bjart.“

Hver er þinn uppáhalds páskamatur?

„Lamb, lamb og aftur lamb. Það er ekkert sem skákar íslenska lambinu, læri eða hrygg - allt upp á gamla mátann.“

Heldur þú í ákveðnar hefðir í tengslum við páskana?

„Ekki svo, nema bara þetta að hafa það rólegt og lesa og hlusta á gott útvarp og borða góðan mat. Bráðnauðsynlegt að kaupa sér nýja bók og tímarit til að hafa það virkilega náðugt.“

Skreytir þú heimilið þitt á páskunum?

„Mér finnst gaman að setja fallegar greinar í vasa, kaupa túlipana og sumarleg blóm. Ég á smávegis af páskaskrauti sem ég set upp en ekki mikið.“

\"\"

Borðar þú páskaegg?

„Já, ég hef nú yfirleitt fengið mér páskaegg, finnst það tilheyra og ekki síst út af málshættinum. Voða gaman að lesa í hann, sérstaklega ef hann gamaldags en stundum hef ég þurft að fá smá útskýringu hjá pabba sem er snillingur í þeim.“

\"\"

Uppáhalds páskaeggið þitt?

„Uppáhaldspáskaeggið er frá Nóa Síríus, það er ekkert sem toppar það – gamla góða bragðið.“

Áttu þína uppáhalds hnallþóru eða brauðrétt sem þú ert alltaf með á páskunum?

„Ég er alltaf svolítið hrifin af tartalettum og finnst gott að útbúa þær og hita með skinku eða hangikjötsfyllingu og svo er voða gott að eiga eina góða tertu með kaffinu og bókinni og líka fallega skreyttar bollakökur sem gleðja ekki síður augað. En í seinni tíð hef ég bætt við dögurðinn, eggjarétti sem hefur hitt í mark á mínu heimili en það er egg coddler. Minnsta mál í heimi og svo huggulegt. Set tvö egg í hvern coddler en það er nauðsynlegt að smyrja hann fyrst að innan með olíu eða smjöri. Gott að hafa eggin við stofuhita þá tekur suðan á eggjunum ekki nema um 6 mínútur. Coddlerarnir eru settir í sjóðandi vatn upp að loki, passa að festa lokinu ekki alveg. Oft set ég hráskinku með ofan í og timian eða graslauk yfir - allt eftir smekk hvers og eins. Með þessu er tilvalið að hafa ristað brauð og gott salt að sjálfsögðu. Ég fékk mína coddlera hjá henni Jóhönnu í versluninni Álfagulli í Hafnarfirðinum og mér finnst þeir alger snilld.“

Viltu gefa okkur uppskriftina af þeim rétti, köku eða brauðrétti sem þú bakar ávallt á páskunum?

„Með ánægju, hér er ein mín uppáhalds marengsterta.“

\"\"

Marengsterta með rósum, hindberjum og súkkulaði – með krafti úr Jöklinum

Botnar

6 eggjahvítur

400 ml púðursykur 

Byrjið á því að hita ofninn í 160° gráður. Þeytið vel saman í allt að 10 mínútur. Teiknið þrjá hringi á smjörpappír sem passar á rétta diskinn sem kakan á að fara á. Setjið marengsinn þegar hann er orðinn stífur á smjörpappírinn á bökunarplötu, í formuðu hringina.  Setjið í ofninn og bakið við 160 gráður í 50 til 60 mínútur. 

Fylling og skraut

750 ml þeyttur rjómi

2-3 dropar rósaolía

Dökkir súkkulaðidropar

Hindber

Dökkt súkkulaði eftir smekk, brætt saman við smá sýróp og smjörklípu.

Þegar marengsbotnarnir eru tilbúnir eru þeir kældir. Rjóminn þeyttur og rósaolíunni bætt í. Súkkulaðidropar settir í rjómann sem fer á milli botnanna. Smá þeyttur rjómi settur ofan á efsta lagið og hindberjum dreift þar. Súkkulaði, smá sýróp og smjör brætt saman og sett yfir rjómann. Skreytt með rósum ef vill.

Bragðast syndsamlega vel og rósirnar eru sannkallað augnakonfekt.

Myndir frá Málfríði Gylfadóttur og úr einkasafni