Sýndarmennska og hræsni hins verklausa ráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar-nýsköpunar-og ferðamálaráðherra hefur gegnt þessu ráðherraembætti í 19 mánuði án þess að nokkuð liggi eftir hana. Afrekaskráin er einstaklega stutt. Hún er engin. Stórt núll. Samt hefur hún á sinni könnu málaflokka þar sem tækifærin eru hvað mest.

Nú hefur einhver af öllum ráðgjöfum hennar, aðstoðarmönnum og hjálparkokkum væntanlega bent henni á að fara að gera eitthvað þannig að eftirmælin eftir pólitískan feril hennar verði ekki enn verri en Ragnheiðar  Elínar Árnadóttur, forvera hennar í embætti. Hún kom heldur engu í verk.

Og hvert er þá útspilið? Jú, ráðherra ætlar að hætta með svokallað Átak til atvinnusköpunar sem hefur verið starfrækt frá tíma Finns Ingólfssonar árið 1996. Á þeim árum var Þórdís enn að leika sér í snú-snú.

Með því að hætta þessu á að spara 70 milljónir króna á ári. Skiptir engu máli og er hrein sýndarmennska.

En það sem verra er: Ráðherra þykist ætla að LÆKKA skatta um þessa smáaura. Það er einungis pólitísk hræsni. Þessi ríkisstjórn ætlar ekki að lækka neina skatta. Vinstri græn munu ekki leyfa það.

Ráðgjafar ráðherra verða að gera betur en þetta!

Rtá.