Þeir sem elska bleikt taka andköf þegar myndirnar úr þessari afmælisveislu er skoðaðar. Hugmyndasmiðurinn á bak við bleiku veisluna er Arna Guðlaug Einarsdóttir sem er með Kökukræsingar Örnu. Arna er þekkt fyrir sínar ljúffengu og fallegu kökuskreytingar en hún er annálaður kökuskreytingarmeistari og gaman er að fylgjast með listrænu hæfileikum þegar kemur að því að skreyta kökur og dekka hátíðarborð. Sjón er söguríkari. Hægt er að fylgjast með listrænu hæfileikum Örnu í kökuskreytingum á fésbókarsíðunni Kökukræsingar Örnu og instagramsíðunni @arnaeinarsd.
Fallegur þriggja hæða diskurinn með föngulegum sætum bitum sem eiga vel við./Ljósmyndir Arna Guðlaug Einarsdóttir.
Innblásturinn oft af Instagramsíðum
Segðu okkur aðeins frá þemanum sem þú valdir og hvar þú fékkst innblásturinn? „Við mæðgur elskum báðar bleikt þegar að kemur að borðskreytingum. Ég fylgi nokkrum mjög skemmtilegum Instagram reikningum sem sérhæfa sig í borðskreytingum og fæ oft mikinn innblástur þaðan,“ segir Arna sem er ein af þeim sem safnar til að mynd frekar servíettuhringjum og borðskrauti en veskjum. „Ég hef í gegnum tíðina safnað bleikum borðbúnaði. Kökudiskurinn og þriggja hæða diskurinn er PIP Studio sem fékkst einu sinni hér á landi. Bleika bollastellið fékkst í Pier fyrir nokkrum árum. Bleiku skálarnar sem ég nota undir brauðið og kleinuhringjakúlurnar eru úr Rúmfatalagernum og fást þar enn. Mín partýbúð er Allt í köku, sú verslun er með alveg meiriháttar flotta partýdeild og gott úrval af fallegum einnota vörum. Metallic rósagull dúkurinn, servíetturnar og auka diskar voru þaðan ásamt nokkrum blöðrum. Þrátt fyrir að þetta séu einnota vörur eru þær mjög vandaðar og einstaklega fallegar. Einnig kaupi ég alltaf helíum kúta þaðan, svo ótrúlega gott að eiga einn slíkan þegar að maður vill skreyta með blöðrum.“
Fallega bleika bollastellið hennar Örnu er einstaklega hátíðlegt og skemmtilegt./Ljósmyndir Arna Guðlaug Einarsdóttir.
Nýjasta æði hjá Örnu kleinur með rjómaosti og reyktum laxi.
Bleik afmælisterta með rósagulls smjörkremi
Hvers kyns kræsingar valdir þú að bjóða uppá? „Við vorum með eina súkkulaðiköku sem ég skreytti með bleiku og rósagull smjörkremi sem voru þemalitir veislunnar. Hún er alltaf klassísk og vinsæl. Einnig bakaði ég marengstölustafi og hafði ávaxta- og kókosbollurjóma á milli. Ég er komin með dálítið leið á að gera þessa týpísku heita rétta þannig að ég var með ostabakka og svo tvo ofnbakaða camenbert með smá skvettu af hunangi yfir, einnig rækjusalat og með þessu baguette. , Kleinuhringja kúlurnar frá Costco eru svakalega vinsælar hjá yngsta hópnum. Ég var einnig með kleinur með reyktum laxi, sú samsetning kemur alltaf öllum skemmtilega á óvart. Ég sker þá kleinurnar í tvennt langsum og smyr með smá rjómaosti og legg sneið af reyktum laxi yfir.“ Arna deilir hér með okkur uppskriftinni af hennar flauelsimjúku súkkulaðiköku sem sem allir súkkulaðiaðdáendur munu elska.
Stórglæsileg afmæliskakan sem Arna bakaði og skreytti fyrir dóttur sína í tilefni 13 ára afmælisins. Rósagullliturinn fer vel með bleika litnum og fangar augað.
Súkkulaðikaka að hætti Örnu
2 bollar hveiti
1 tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. natron
3/4 bollar kakó
2 bollar sykur
1 bolli jurtaolía
1 bolli heitt kaffi
2 stór egg
1 tsk. vanilla
Byrjið á því að hita ofninn í 160°C. Blandið síðan öllum þurrefnunum saman í skál og hrærið saman. Því næst er jurtaolíunni, kaffinu og mjólkinni blandað saman við og hrært saman í um 2 mínútur. Að lokum er eggjum og vanilludropunum bætt við og hrærið í aðrar tvær mínútur. Þetta deig er fremur þunnt. Ég set þetta í tvö form og baka í um 30 mínútur við 160°C blástur. Bökunartími fer eftir stærð formanna.
Smjörkrem
250 g smjör við stofuhita
500 g flórsykur
4 tsk. vanilludropar
2 mjólk (má bæta við mjólk til að þynna)
Matarlitir ef smekk og þema
Hrærið smjörið í hrærivélinni þangað til það er orðið mjúkt og létt. Bætið flórsykrinum smá saman við. Bætið því næst vanilludropunum saman við sem og mjólkinni. Mér finnst betra að hafa kremið í þynnra lagi til að covera kökuna en stíft til sprauta skreytingar. Þannig skiptist ég á að bæta við mjólk og flórsykri til að fá réttu þykktina.
Síðan getið þið skreyt kökuna að vild, með sælgæti í þemalitinum sem þið viljið, með kreminu og hægt að toppa kökuna með því að skreyta með lifandi blómum eftir smekk og þema hvers og eins.