Upplýsingar sem fjölmargar konur í stjórnmálum hafa sent frá sér varðandi kynferðislega áreitni hafa vakið gífurlega athygli.
Í frásögnum sumra þeirra er því haldið fram að núverandi og fyrrverandi formenn íslenskra stjórnmálaflokka hafi gerst sekir um alvarlega kynferðislega áreitni, káf og þukl, sem valdið hafi stjórnmálakonum miklu hugarangri.
Þessi meintu brot hafa ekki verið heimfærð á einstaka formenn enn sem komið er. Það er mjög alvarlegt mál að varpa fram ásökunum af þessu tagi þannig að fjöldi manna geti legið undir grun. Langflestir þeirra eru væntanlega saklausir.
Enda eru sögusagnir komnar á fleygiferð. Vegna þeirra sem hafa ekkert til sakar unnið verður að krefjast þess að umræddar stjórnmálakonur upplýsi nú þegar við hvaða núverandi eða fyrrverandi formenn er átt þegar ásakanir um grófa kynferðislega áreitni eru settar fram.
Það má ekki dragast að þetta verði upplýst því meðal þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á sögusögnum vegna þessa eru Steingrímur J. Sigfússon, verðandi forseti Alþingis, og Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi ráðherra.
Ef þeir eru saklausir af misgjörðum af þessu tagi, þá þarf að upplýsa það strax.
Stjórnmálakonunum sem hafa ýtt þessari grafalvarlegu umræðu af stað, ber skylda til að ljúka frásögnum sínum og hreinsa andrúmsloftið strax gagnvart núverandi og fyrrverandi formönnum sem skipta tugum.
Ekki er unnt að leiða aðra til æðstu metorða en þá sem hafa hreinan skjöld.
Rtá.