Lukka: svona virkar fitubrennsla best

Getur verið að mikið sé til í þeim kenningum sem nú eru vinsælar, meðal annars hjá úthaldsíþróttafólki, að við getum þjálfað frumur okkar í það að verða “fitubrennslufrumur”?

Þetta var meginspurningin í Heilsuráðum Lukku Pálsdóttur á Hringbraut á mánudagskvöld, en þátturinn verður endursýndur í kvöld. Þættir hennar sem fjalla öðru fremur um breytt og betra mataræði hafa vakið mikla athygli, enda Lukka kunn af góðum ráðum sínum í þessum efnum. Þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar.

Gefum Lukku orðið: \"Hvatberar, öðru nafni orkukorn frumanna hafa það hlutverk að búa til ATP sem er orkugjaldmiðill sem frumur líkamans nota í starfsemi sína. Það, hvort neytt sé kolvetna eða fitu getur haft áhrif á hvort þessarra orkuefna hvatberarnir nýta til að búa til ATP.

Í mjög einfölduðu máli getum við sagt að ef alltaf er nægur sykur / kolvetni til staðar í líkamanum þá brenna hvatberarnir sykri, en ef fita er ríkjandi í fæðuinntöku okkar en sykurneysla í lágmarki þá brenna hvatberarnir frekar fitu. Með þessu móti er hægt að segja að fituneysla geri okkur hæfari til að nýta fitu sem orkugjafa og því þjálfast frumur okkar í það að verða litlar fitubrennslu verksmiðjur.\" 

En fyrir hverja getur þetta skipt máli, spyr Lukka í þættinum - og ekki stendur á svari: \"Einstaklingar eru mismikið útsettir fyrir því ástandi sem kallast efnaskiptavilla (metabolic syndrome). Í því ástandi verða frumur okkar ónæmari fyrir insulíni heldur en áður og ef þetta ástand er viðvarandi og fær að þróast áfram endar það með greiningu á sykursýki af gerð II. Þar sem tíðni sykursýki II er á uppleið á Íslandi eins og flestum nágrannalöndum þá gæti þetta mögulega verið góð leið til að sporna við þessum alvarlega og kostnaðarsama sjúkdómi.

Því ættu þeir sem eru í áhættu á að þróa með sér sykursýki II að skoða málið og jafnvel að prófa að breyta mataræði sínu í þessa veru. Aðrir sem gætu nýtt sér þessa leið eru t.d. íþróttafólk í úthaldssporti, svo sem hjólreiðum, langhlaupum, skíðagöngu og öðru slíku sporti sem útheimtir orkuútlát í margar klukkustundir í senn.

Þar sem kolvetnabirgðir líkamans klárast tiltölulega fljótt hafa þessir einstaklingar þurft að reiða sig á orkudrykki, gel og annað slíkt til að komast í gegnum keppni en ef við getum þjálfað frumurnar í fitubruna þá getum við mögulega nýtt þá leið til að komast lengra og hraðar. Það gæti verið þess virði að prófa sig áfram,\" segir Lukka Pálsdóttir að þessu sinni.

Heilsuráð Lukku eru frumsýnd öll mánudagskvöld klukkan 21:15 og endursýnd í allan dag og á miðvikudagskvöldum.