Svona matreiðum við humar

Það var enginn annar en fiskikóngurinn sjálfur, Kristján Berg sem kenndi áhorfendum Hringbrautar að skelfletta humar ogg matreiða hann í neytendaþættinum Heimilinu sem frumsýndur var á Þorláksmessu, en ugglaust verða fjölmargir landsmenn með þetta ljúffenga sjávarfang á borðum sínum yfir hátíðarnar.

Kristján nefnir til sögunnar nokkrar leiðir til að skelfletta humarinn, meðal annars að slíta skelina í sundur, en eins og sést hér í klippu úr þættinum eru fleiri leiðir þar að settu marki.

Hann segist vera búinn að prófa ótal leiðir við að krydda humarinn, en alltaf endi hann á sama bragðbætinum; salti, pipar og hvítlauk - og helst dálaglegan slatta af því síðastnefnda.

Honum finnst öruggast að nota ofninn við að elda humarinn, kyndir hann vel og setur grindina efst í ofninn, eða sem næst grillinu - og hefur stærsta humarinn í um þa bil sex mínútur í ofninum, en þann meðalstóra um hálfa fjórðu mínútu.

Fólk megi svo ekki gleyma því að við háan hita haldi humarinn áfram að eldast þegar hann er tekinn út úr ofninum, en alls ekki meegi hafa hann of lengi inni í ofninum.

En sem fyrr segir er hússráð að skoða klippuna með Kristjáni Berg og læra þar af sjálfum meistaranum.