Reynið að fremsta megni að koma í veg fyrir að láta bakarofninn verða mjög óhreinan. Það er miklu einfaldara og þægilegra að þrífa hann jafnóðum. Það er besta ráðið. Ef ofninn er óhreinn af viðbrenndum matarleifum í botni og upp um hliðar er það ekki gott ásýndar og eldhúsið fyllist af brælu þegar ofninn hitnar.
- Eftir bakstur er oftast nóg að strjúka innan úr ofninum með rökum klút, nema að deigið hafi flætt út úr mótinu.
- Eftir steikingu í ofninum er góð regla að þrífa hann eftir matinn, þá er ofninn orðinn kaldur og gott að þvo hann. Fitu sem frussast um allan ofn er best að því með sterku sápu vatni. Grindur úr ofni má setja í uppþvottavél ef þær eru lausar.
- Uppsöfnuð óhreinindi í bakarofni þarf að taka fastari tökum. Þá er lag að nota grænsápu og bera á alla flettina inn í ofninum og láta bíða í sólarhring og þvo síðan með hreinu vatni og grófum svampi. Í sumum tilvikum er gott að nýta stálull en forðast að nota hana á ál, þá getur álið rispast. Stundum þarf að endurtaka þetta ef óhreinindin hafa fest sig í sessi. Til eru ýmis konar sterkari efni til að hreinsa ofna en vert er að hafa í huga hvort efnin eru skaðleg umhverfinu. Velja frekar þau efni sem ekki eru skaðlega umhverfinu. Matarsódi, edik og vatn er jafnframt góð efnablanda til að þrífa bakarofna á eiturefnalausan hátt en mikilvægt er að nota edik í réttum hlutföllum sem hægt er að sjá á vefsíðu Leiðbeiningastöðvar heimilanna. Eiturefnalaus þrif eru ávallt í fyrsta sæti.
- Bökunarplötur og grindur þarf að þvo og bursta með sápuvatni. Ef þær eru orðnar blettaóttar og óhreinar getur verið gott að nota blautsápu á þær og láta bíða í sólarhring og bursta síðan vel. Einnig má nota stálull á bökunarplötur og grindur en forðast ef þær eru úr áli, þá eiga þær hættu á að rispast.
Regluleg þrif og góð umhirða er ávallt allra best þegar kemur að notkun eldhústækja og tóla og auðveldar öll þrif til muna.
Hreinn bakarofn er gulli betri. *Myndir aðsendar.