Matgæðingurinn og tónlistargoðsögnin Björgvin Halldórsson mætti í sjónvarpsþáttinn Grillspaðann í gærkvöld og sýndi þar kúnstir sínar á teinunum en hann leggur áherslu á að hreyfa kjötið sem allra minnst, helst ekkert, eftir að það er byrjað að ristast.
Og Bjöggi velur haf og haga þegar kemur að því að gera vel við sig; til dæmis eigi turnbauti og humar einkar vel saman á nautnadisknum, en þá gildi sem fyrr segir að láta steikina í friði á grillinu; alltof margir sé eilíflega að hræra í henni á meðan á glóðuninni stendur.
Og hann vill hafa þetta einfalt; sker vel snyrta nautalundina í turnbauta og tónar hana til með Virgin ólífu-olíu, maldon-salti og pipar, engu öðru. Sérvalinn humarinn hreinsar hann og kryddar með grænu parsley, hvítlaukssmyrju, sítrónu og smjöri, ekkert vesen þar.
Auðvitað mælir hann svo með Bó-sósunni sinni sem er ljúffeng Bernaise-sósa sem hægt er að bragðbæta að vild á staðnum, ekkert heilagt þar - og svo megi allt eins hafa til hliðar BBQ-anis-sósuna frá henni Hrefnu Sætran, þeim eðla snillingi, en báðar sósurnar fást í öllum betri matvörubúðum.
Svo gerir hann grænmetisspjót, t.d. með marglitum paprikum, kokteiltómötum, sveppum og eggaldini, allt eftir smekk hvers og eins.
Hann mælir loks með sítrónusneiðum á vel úti látinn diskinn.
Og þar með sé hamingjan í höfn.
Horfðu á þáttinn með því að smella hér: