Svona getur þú spornað gegn matarsóun og sparað um leið
Þegar kemur að því að huga umhverfinu og matarsóun hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu sem er einkar ánægjulegt. Margt smátt gerir eitt stórt og allir geta lagt eitthvað af mörkum, hver á sinn hátt.
Ebba Guðný Guðmundsdóttir matar- og lífsstílbloggari með meiru er mikil áhugamanneskja um matarsóun og blöskraði þegar hún las frétt um að meðal fjölskylda hér á landi hendi sem samsvarar um 150.000,- krónum í ruslið ár hvert. „Það er alveg skelfilegt. Margt skemmtilegt hægt að gera fyrir þann pening. Fyrir utan að þessir matarafgangar enda í plastpokum sem er ekki gott fyrir umhverfið og andrúmsloftið. Ég man er ég heimsótti vinkonu mína í Lundi Svíþjóð fyrir um 13 árum. Þá var sér ruslatunna fyrir matarafganga. Mig dreymir um að það verði hér í minni borg, Reykjavík. Ég held að margir treysti sér ekki í moltugerð og því er þetta ein leiðin til að bregðast við því og sporna gegn sóun.“
Ebba leggur sitt af mörkum í öllu heimilishaldi til að koma veg fyrir hvers kyns sóun og sérstaklega þegar kemur að matvörum. Með því nær hún að slá margar flugur í einu höggi, meðal annars sporna gegn matarsóun, fækka kolefnissporum, spara í rekstri heimilisins, tekur þátt í umhverfisvernd og nýtir tímann betur.
Ebba Guðný Guðmundsdóttir er mikil áhugamanneskja um matarsóun og Sjöfn Þórðar heimsótti hana á dögunum í eldhúsið í þættinum Matur og Heimili.
Ebba gefur hér nokkur góð ráð fyrir umhverfisvernd og matarsóun
- Afþakka plastpoka í búðum (Íslendingar fleygja um 110 þúsund plastpokum í ruslið á hverjum degi).
- Ekki setja ávexti og grænmeti í poka í búðum. Nóg að skola grænmetið/ávextina áður en maður notar þá og sumt er afhýtt.
- Ávextir þroskast á stofuborði. Þegar þeir eru þroskaðir (sætir og safaríkir) þá er best að setja þá í ísskápinn og geyma þar en fara vel með þá, gæta þess að þeir merjist ekki.
- Ávextir eru mjög viðkvæmir þegar þeir eru þroskaðir.
- Hugsa áður en hlutir eru keyptir. Þarf ég þetta nauðsynlega?
- Notast við innkaupalista og lista hvað klárast.
- Nota sultukrukkur með loki fyrir afganga. Þá sést vel hvað er til þegar maður opnar ísskápinn.
- Frysta það sem liggur undir skemmdum. Ávextir fara í þeytinga og grænmeti í súpur, pottrétti og sósur.
- Geyma helminginn af avókadó, epli, sítrónu, mangó á hvolfi ofan í skál/glasi inni í ísskáp ef aðeins annarra helmingurinn hefur verið notaður. Nota næsta dag eða þar næsta osfrv.
- Geyma súrdeigsbrauð í sneiðum og vefjur í frysti.
- Elda mat, svo hann skemmist ekki. Hann geymist eldaður inni í ísskáp í 4-5 daga en líka hægt að frysta matinn eftir eldun.
- Huga að hverju er oftast hent. Kaupa minna af því eða finna leiðir til að minnka sóunina.
- Setja afganga í vefjur. Allir geta búið til sína vefju eftir smekk.
- Frysta afganga af osti og nota á pítsur.
- Taka sig til þegar þarf og útbúa mat úr afgöngum, einn dagur í viku fyrir ísskápshreinsun er góður.
- Mjög gott að steikja aftur grænmeti, kjöt, grjón, quinoa með góðu kryddi upp úr góðri ólífuolíu. Til að mynda er hægt að setja alls konar svona afganga inn í vefjur með osti.
- Matur er oft í góðu lagi mun lengur en best fyrir dagsetningar segja til um. Finna lyktina, ef lyktin fín er í góðu lagi með matinn.
- Nota útrunna mjólk í vöfflur og pönnukökur og þess háttar.
- Það getur verið heilmikill sparnaður í því að vinna aðeins styttri dag (ef maður er með litla krakka) og geta þannig betur skipulagt matarinnkaup og matmálstíma, eldað mat, bakað brauð, nýtt afganga og hugsað heila hugsun.
- Gefa sér tíma að ganga frá mat þegar farið er í frí, til dæmis til útlanda. Skola, skera niður, frysta eða elda mat og frysta hann svo.
- Það er ódýrara að elda heima og umhverfisvænna en að þeytast um allan bæ að kaupa mat í alls konar umbúðum sem eru einnota yfirleitt.
- Velja matvörur sem eru á afslætti í verslunum, sem eru til dæmis að renna út, útlitsgallar eða á sést. Eins og grænmeti og ávexti sem eru gjarnan seldar á afslætti í verslunum Bónus.
- Setja minna á diskinn, alltaf hægt að fá sér aftur.
- Drekka vatn, ódýrasti, hollasti, umhverfisvænasti og besti drykkurinn. Venja börn á vatn strax. Vatn er dýrmætasta auðlindin.
Hægt er að fylgjast með blogginu hennar Ebbu á síðunni hennar Pure Ebba.