Menn hafa um langan aldur háð stríð. Sum þeirra hafa sprottið af fremur litlu tilefni, sem útkljá hefði mátt með stuttu samtali, jafnvel afsökunarbeiðni. Önnur eiga sér dýpri rætur í ágreiningi, sem oft vex í tilfinningaríkum jarðvegi. Það verður líka að gangast við því að oft spila trúarleg sjónarmið inn í ágreining manna og þá er stutt í að tilfinningar taki yfir og menn verði viðskila við rökin. Þau mál má líka leysa með afsökunarbeiðni.
Nú hefur Ríkisútvarpið nýlokið við að sýna Svona fólk, heimildarþáttaröð um réttindabaráttu samkynhneigðra hér á landi. Óhætt er að fullyrða að aldrei hefur sambærilegt sjónvarpsefni verið búið til hérlendis.
Höfundurinn og leikstjóri þáttanna, Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður, á skilið lof fyrir verkið. Sú yfirsýn sem gefin er af harðri og ósanngjarnri baráttu fyrir sjálfsögðum réttindum er mikils virði. Þó að réttindabaráttunni sé ekki lokið mega nú tveir einstaklingar ganga í hjónaband frammi fyrir Guði og mönnum, án tillits til kyns þeirra eða kynhneigðar. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Aðeins örfáir áratugir eru síðan samkynhneigðu fólki var vísað úr vinnu eða það missti húsnæði vegna kynhneigðar sinnar.
Það verður ekki vikið að baráttu samkynhneigðra hérlendis án þess að nefna þátt kirkjunnar. Um langt árabil neitaði þjóðkirkjan sjálf, í þessum efnum, að horfast í augu við að allir menn væru skapaðir jafnir fyrir augliti Guðs. Fyrsta skref löggjafans varðandi sambúð án tillits til kyns var að festa í lög ákvæði um staðfesta samvist. Það var að forminu til löggerningur, eins konar sáttmáli, sem gera skyldi hjá sýslumanni.
Það var ekki fyrr en árið 2010 að fyrstu grein hjúskaparlaga var breytt þannig að í stað orðanna „karls og konu“ kom „tveggja einstaklinga“. Þar með var björninn unninn að þessu leyti.
Í síðasta þætti heimildarmyndaraðarinnar er bútur úr viðtali við þáverandi biskup þjóðkirkjunnar frá árinu 2006, um það leyti sem áform voru um að heimila kirkjunni að vígja einstaklinga í hjónaband án tillits til kyns þeirra. Þar sagði þáverandi biskup að kirkjan hefði um langa hríð gengið út frá skilgreiningu í þessum efnum og nú væri kallað eftir að þeirri skilgreiningu væri breytt. „Ég á við að ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang.“ Þetta orðfæri eldist frámunalega illa.
Núverandi biskup svaraði því í liðinni viku hvort biðjast ætti afsökunar á þessum orðum: „Ég get alveg beðið fólk afsökunar á því að kirkjan hafi komið svona fram og sært fólk … Ég er fús til þess að biðjast afsökunar á því.“ Svarið er í áttina, en ekki fullnægjandi. Kirkjan hefur tækifæri nú til að ganga alla leið og biðjast afsökunar, fullum fetum. Það gæti orðið liður í að auka sáttina sem mikilvægt er að ríki um hana. Ef marka má nýja mælingu á trausti fólks til kirkjunnar, mun ekki af veita.