Svona á að styðja frjálsa fjölmiðlun

Ef ríkisvaldið meinti eitthvað með afnámi opinberrar einokunar á ljósvakamiðlum fyrir rífum 30 árum er sjálfsagt tímabært að það fari að gera ráð fyrir einkareknum fjölmiðlum hér á landi. Það er út af fyrir sig ágætt að skrifa skýrslu um vandann, en aðgerðir til að laga ójafnræðið á markaðnum myndu þó gagnast miðlunum miklu betur.

Þetta þarf helst af öllu að gera svo einkaframtakið nái að dafna í þessum geira: 1) Stofna sjónvarps- og útvarpssjóð fyrir frjálsa miðla, svipaðan Kvikmyndasjóði.2) Efna til Launasjóðs rannsóknarblaðamanna, áþekkan launasjóði listamanna. 3) Afnema kostanir á dagskrárefni Ríkisútvarpsins og endurskilgreina heimildir þess til auglýsingasölu. 

Vísast má bæta RÚV upp tekjutapið af þessum tillögum með hækkun útvarpsgjalds - og hagræða í rekstri þess. Það er enda svo að efling einkarekinna miðla á öldum ljósvakans á ekki að vera á kostnað Ríkisútvarpsins sem er mikilvæg menningar- og upplýsingaveita. En það eru einkareknu miðlarnir líka, enda hafa þeir staðið sig afskaplega vel í 32 ár.