Við eigum Strákana okkar og við eigum Stelpurnar okkar. Jafnan kennt við íþróttir. En nú eigum við líka vaxandi hóp þjóðfélagsmeðlima sem eru Svindlararnir okkar. Þeir ganga í skóla en gera allt hvað þeir geta til að sleppa sem léttast frá náminu. Þeir stela texta frá öðrum, vinstri hægri, og svindla eflaust miklu oftar á prófum en kennarar vita af. En þegar kemst upp um Svindlarana okkar lýsa þeir sjálfum sér sem þolendum og fórnarlömbum og fá jafnvel töluverða samúð meðal almennings.
Tekið var til þess þegar fyrsta ritstuldarmálið innan lagadeildar HÍ kom upp fyrir nokkrum árum hve viðbrögð skólans voru máttleysisleg. Síðan hafa verið fluttar margar fréttir af ýmsum nemum sem búa til heilu og hálfu viðtölin undir yfirskini eigindlegra rannsókna. Leiðbeinendur virðast hafa lítinn tíma til að þaultékka fræðin. Vaxandi siðleysi er svartur blettur á göfugu starfi þorra þess fólks sem starfar og nemur við mennta- og fræðiheiminn.
Nú eru vísbendingar um að svörtu sauðunum sé að fjölga og vísbendingar um að svindl sé að færast neðar í aldri. Liggur þá mikið undir að senda svindlurum þau skilaboð sem þeir eiga skilið. Á mbl. is var í gær sagt frá hópi nemenda Menntaskólans við Sund sem voru staðnir að svindli í stúdentsprófi við þýsku í vor. Ekki verður annað séð en að skólinn hafi tekið mildilega á krökkunum. Í stað þess að reka þau úr skólanum, fengu krakkarnir að taka annað próf, greiddu 10.000 krónur fyrir og útskrifuðust, bara aðeins síðar en heiðarlegir samnemendur þeirra. Vel sloppið og má hreinlega setja spurningarmerki við þessa silkimeðferð.
Svindlkrakkarnir töldu þó „íþyngjandi“ að þeim væri gerð svo hörð refsing fyrir svindlið. Mbl. is segir: „Nemendurnir kærðu bæði ákvörðun skólans um að prófúrlausnir þeirra væru ekki matshæfar og töldu þeir málsmeðferðina ósamrýmanlega ýmsum meginreglum stjórnsýsluréttar. Þar að auki kærðu þau ákvörðun skólans um að halda aukaprófið eftir að útskriftarathöfn skólans fór fram. Töldu þeir þá ákvörðun sérstaklega íþyngjandi í ljósi þess að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að útskrifast með samnemendum sínum. Töldu þau einnig að þau hafi orðið fyrir tekjutapi í sumarstörfum vegna tímasetningar prófsins en það fór fram 3. júní síðastliðinn.“
Hve firrtur er þessi heimur orðinn? Svindlheimurinn okkar?