Enn svíkur ríkisstjórnin loforðin sem hún hefur ítrekað gefið um að bæta samkeppnisumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Um áratuga skeið hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn heitið því að taka ríkisútvarpið af almennum auglýsingamarkaði eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar, þar á meðal á Norðurlöndum og í Bretlandi. Í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ráðherra fjölmiðla heitið því ár eftir ár að hrinda þessum loforðum í framkvæmd og taka ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Lilja Alfreðsdóttir hefur haft með þennan málaflokk að gera í fimm ár en engin skref stigið í þessa átt. Hún hefur margsinnis ítrekað að hún hyggist gera það en efndir eru engar.
Á sama tíma er látið viðgangast að erlendir fjölmiðlar sem birta auglýsingar í íslenskum miðlum, svo sem á netmiðlum og í sjónvarpi, greiði engan virðisaukaskatt eins og íslenskir fjölmiðlar þurfa að gera. Fyrirferð erlendra miðla á íslenskum markaði vex stöðugt og þessi skakka samkeppnisstaða er látin viðgangast þó að öllum sé ljóst að um grófa mismunun vegna skattheimtu er að ræða. Ráðherra þessa málaflokks lofar öllu fögru og virðist jafnvel búa yfir sannfæringarkrafti þegar hún gefur yfirlýsingar um sanngjarna meðferð á þessu sviði. Efndirnar eru hins vegar engar. Bara er talað og lofað aftur og aftur og aftur.
Framkoma núverandi ríkisstjórnar í garð einkarekinna fjölmiðla er því miður algerlega fyrir neðan allar hellur. Í fimm ár hefur verið lofað jafnræði í skattamálum gagnvart erlendum fjölmiðlum og í fimm ár hefur verið því verið lofað að taka ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Efndir eru engar. Ráðherra fjölmiðla í ríkisstjórninni hefur einkum „státað“ af því að láta úthluta rekstrarstuðningi til einkarekinna fjölmiðla, lítilli fjárhæð sem dreifist í margar áttir og gerir afar lítið til að vega upp á móti því ranglæti sem er látið viðgangast af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ranglæti sem ógnar lýðræðislegri umræðu í landinu.
Lítum aðeins á þróun þessara styrkja. Opinberir styrkir til einkarekinna fjölmiðla hafa rýrnað verulega í seinni tíð. Árið 2020 fékk Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið, hæsta styrkinn sem nam 100 milljónum króna. Árið 2021 var hæsti styrkurinn kominn niður í 82 milljónir króna og hæsti styrkur til fjölmiðla sem greiddur var út í september á þessu ári nam 67 milljónum króna.
Á tveimur árum hefur lækkunin numið þriðjungi í krónum talið. Ef tekið er mið af verðbólgu, sem hefur samtals numið 15 prósentum á þessum tveimur árum, hefði hámarksstyrkurinn þurft að nema 115 milljónum króna til að vera sambærilegur við það sem greitt var árið 2020. Með öðrum orðum: Styrkurinn er 42 prósentum lægri nú en var fyrir tveimur árum.
Þetta er engan veginn í samræmi við stór orð ráðherra um mikilvægi einkarekinna fjölmiðla til að tryggja lýðræðisleg skoðanaskipti og skoðanafrelsi í landinu. Öðru nær. Stjórnvöld virðast helst vilja að ríkisútvarpið eflist en einkareknir fjölmiðlar gefi eftir þannig að þegar upp er staðið verði hér ríkisútvarp og ein samræmd skoðun á öllum sköpuðum hlutum. Er sovéskt ástand virkilega svona áhugavert?
Á sama tíma og þetta gerist er ráðstafað fimm milljörðum af skattpeningum landsmanna til ríkisútvarpsins. Hækkanir á síðustu tvennum fjárlögum hafa numið 720 milljónum króna úr ríkissjóði. Skýringin er sú að hér sé verðbólga og komið hafi til launahækkanna! Trúlega á það ekki við hjá einkareknum fjölmiðlum. Þar er sennilega ekkert um launahækkanir samkvæmt kjarasamningum og alls engin verðbólga!
Að lokum er ástæða til að geta þess að stjórnvöld eru ekki eins aðhaldssöm þegar kemur að styrkjum til stjórnmálaflokka – þeirra sjálfra. Síðan núverandi ríkisstjórnarflokkar tóku við völdum hér á landi hafa ríkisstyrkir til stjórnmálaflokka hækkað úr 290 milljónum króna á ári í tæplega 800 milljónir króna á ári – eða um 170 prósent.
Einkareknir fjölmiðlar myndu án efa sætta sig við sambærilegar hækkanir og stjórnarflokkarnir útdeila sjálfum sér.
- Ólafur Arnarson.