Svigrúm fyrir óþekkt þingmanna

Margt bendir til aukinnar spennu milli stjórnarflokkanna tveggja um þessar mundir. Fulltrúar flokkanna eru farnir að skerpa á markalínum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta gæti verið vísbending um kulnandi samstarf eða að kosningabaráttan er framundan. Prófessor í stjórnmálafræði segist mjög styttast í að kosningabaráttan hefjist fyrir þingkosningar 2017.

Í grein sem Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins ritar í Morgunblaðið í dag ræðst hann harkalega á samstarfsflokk sjálfstæðismanna í ríkisstjórn, Framsóknarflokkinn. Hann skrifar í umræðu um höft á innflutti vöru og eyðir þar nokkrum orðum í hið svokallaða „snakkmál“ fyrir jól: „Víst er að meginhluti Framsóknarflokks hefur ekkert lært frá 1920...“ – og á þingmaðurinn þar við forsjárhyggjuna sem Framsóknarflokkurinn boði. Reyndar gengur þingmaðurinn svo langt að fullyrða að ef afturhaldsöfl vinstri flokka og framsóknar réðu enn ríkjum byggi landinn enn við sjálfsþurftarbúskap.

Ólíklegt að skorið verði upp

E.t.v. má skoða ummæli Vilhjálms í ljósi þess að nú stendur yfir endurskoðun á landbúnaðarmálum með nýjum búvörusamningi til næstu tíu ára. Heimildir Hringbrautar herma að innan Sjálfstæðisflokks óttast sumir nú að sú endurskoðun verði lítil endurskoðun með liti til markaðsfrelsis. Verið sé að plotta bak við tjöldin um óbreytt ástand, núverandi stuðningsmönnum framsóknarmanna mörgum hverjum í hag, ekki síst fólki í dreifðri byggðum, en síður almennum neytendum.

Má minnast þess að blaðið Vísbending hefur sagt að Ísland búi við eitthvert óhagkvæmasta landbúnaðarkerfi heims. Vitað er um átök og meiningarmun stjórnarflokkanna tveggja vegna landbúnaðarmála og búvörusamnings.

Einnig hefur birst hörð andstaða við húsnæðismálafrumvörp Eyglóar Harðardóttur, til að mynda í ummælum ritara Sjálfstæðisflokksins sem segir frumvörpin ganga gegn stefnu sjálfstæðismanna. Fleiri dæmi mætti nefna um aukinn núning.

Svigrúm fyrir óþekkt nokkurra þingmanna

Hringbraut spurði Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðing og prófessor við Háskólann á Akureyri hvernig hann rýndi í kortin, hvort greina mætti aukinn núning milli stjórnarflokkanna og hverju hann þá sætti?

„Það hafa alltaf verið til staðar mál þar sem áherslur stjórnarflokkanna hafa verið ólíkar, enda Sjálfstæðisflokkurinn lagt meiri áherslu á markaðshyggju, einstaklingsframtak og verslunarfrelsi. Það endurspeglast auðvitað í sumum málum sem koma til kasta ríkisstjórnarinnar eins og t.d. landbúnaðarmálin og svo húsnæðismálin þar sem gert er ráð fyrir, að minnsta kosti að hluta til kollektífum lausnum,“ svarar dr. Grétar.

Ólíkar áherslur hafi einnig gert vart við sig varðandi skuldaleiðréttinguna þegar sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hugnaðist miður sú lausn að fella niður að hluta skuldir hjá stórum hluta almennings. „Þessi áherslumunur í ýmsum stefnumálum þarf ekki að vera til trafala í stjórnarsamstarfi á meðan ekki fleiri en nokkrir þingmenn eru óþægir. Flokkarnir hafa jú mjög sterkan meirihluta á þingi eða 38 menn gegn 25 þingmönnum annarra flokka. Það má því segja að það sé ákveðið svigúm fyrir óþekkt einstakra þingmanna áður en grípa þarf til flokksaga,“ segir Grétar.

 Styttist í alvarlega kosningabaráttu

 En hvað hyggur stjórnmálafræðiprófessorinn: Eru flokkarnir komnir í kosningabaráttu nú þegar þar sem hver og einn þingmaður eða flokkur fer að markera sig með skýrari hætti? Gæti slíkt komið niður á samstöðu meirihlutans í því að fylgja málum úr hlaði?

„Það styttist í að flokkarnir fari að huga alvarlega að næstu kosningum. Líklega fara að sjást þess skýr merki í sumar og haust. Það er ekkert endilega víst að það bitni á samstöðu meirihlutans þó að flokkarnir markeri sig mismunandi í ýmsum málum. Það getur jú líka verið mikils virði að halda saman út kjörtímabilið – annað gæti haft slæm áhrif á kosningabaráttuna og kosningaúrslitin, svona að öllu jöfnu,“ segir Grétar.

„En auðvitað getum við átt von á því að þingmenn tali háværar og skýrar um stefnumál flokksins þegar nær dregur. Væntanlega mun þar við sitja og flokksagi koma til skjalanna ef með þarf,“ bætir hann við.

Fréttaskýring: Björn Þorláksson