Að búa á Íslandi eða búa ekki á Íslandi? Að búa á höfuðborgarsvæðinu eða búa ekki á höfuðborgarsvæðinu?
Þetta eru þær spurningar sem foreldrar fullorðinna íslenskra barna sjá ungdóminn glíma við núna. Nýlegar skýrslur sýna að heimurinn allur er undir. Að einangrun mörlanda sem oft mátti áður tengja við fáfræði og/eða skort á tækifærum, er nú sem hraðast úr sögunni.
Opinber gögn sýna að Íslandi hefur frá hruni ekki tekist að búa til nógu mörg ný og spennandi störf fyrir ungdóminn okkar. Ekki síst lýtur þessi staðreynd að störfum fyrir menntaða. Hátt hlutfall háskólamenntaðra á atvinnuleyssiskrá hefur vakið eftirtekt á sama tíma og ferðaþjónustan malar gull. Ferðaþjónusta er ásamt hagstæðu eldsneytisverði ein helsta ástæða aukins hagvaxtar og batnandi efnahags hjá nokkrum hópi landsmanna. Flestir geta nú fengið einhverja vinnu sem tengist túristabombunni, launin í greininni eru þó ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir. Það er eitt af því sem skýrir hvers vegna okkur finnst eðlilegt að æ fleiri útlenskir starfsmenn sjái um að halda hjólum ferðaþjónustu gangandi hér innanlands. Að ætla sér að reisa áburðarverksmiðju til að halda í ungt fólk er sennilega ekki heldur svarið í boði Framsóknarflokksins. Það er verið að reisa stóriðjur víða um land eða vinna að áformum um þær, en raunin verður kannski sú þegar upp er staðið að útlendingar vinni störfin í verksmiðjunum sem þar skapast, fremur en ungir heimamenn.
Í dag er staðan sú, vegna aukinnar upplýsingar, almennra hugmynda um hagsæld og aukinna tækifæra þjóðar sem er svo heppin að njóta gríðarlegra náttúruauðlinda, að það eru töluverðar líkur á að ungmenni um tvítugt hafi á stúdentsári lært að horfa á heiminn allan sem raunhæfan búsetukost, ekki bara höfuðborgarsvæðið eða aðrar íslenskar byggðir. Líkurnar á landflótta yrðu þó minni en ella ef ungmennið gæti fengið útrás fyrir sköpun sína og menntun hér á landi og myndi í því ljósi þola vel skammdegið, rigninguna eða kuldann. Ef gerðar yrðu breytingar á námslánum og auknir hvatar yrður fundnir til að drífa fólk áfram menntaveginn hérlendis myndi það e.t.v. vega eitthvað á móti togkröftum umheimsins. Það gæti haft áhrif á búsetu krakkanna okkar, innan lands eða utan ef þeim yrði í ríkari mæli umbunað fyrir metnað og dugnað og gætu séð sér sæmilega farborða hér á landi án sérstakra ívilnana, gætu notið fjölbreyttrar menningar, gætu sjálf komið yfir sig húsþaki. En eins og staðan er í dag vantar töluvert upp á.
Að búa á Íslandi eða búa ekki á Íslandi? Að búa á höfuðborgarsvæðinu eða búa ekki á höfuðborgarsvæðinu?
Kannski er það fyrst hin síðari ár sem svörin við þessum spurningum teljast ekki nánast sjálfgefin. Vissulega hafa sumir Íslendingar á öllum tímum sótt út. Nokkur hluti landa vorra hefur um áratuga skeið kosið ótilneyddur nýjar heimaslóðir utan landsteinanna. En að búa á Íslandi og að velja meðvitað íverustað eða lögheimili utan einu borgarinnar okkar, hefur mætt tortryggni meðal ráðandi hópa. En kannski er eitthvað að breytast. Í allar áttir.
Sveitamaður fer suður!
Víkur þá sögu að því að sveitamaðurinn ég skrapp suður í síðustu viku og spókaði mig um í heila fimm daga í borginni við Flóann, undi vel í hinu sæla suðri við leik og störf.
Ég lærði að þeim fannst kalt heimamönnum reykvískum þegar gerði 12 stiga frost um helgina. Auðvitað fannst mér líka skítkalt en neitaði því þó aðspurður. Gott ef ég dró ekki fram sögur upp úr bernskunni um að oft hefði nú slegið nálægt 30 mínusgráðum við Mývatn þegar ég ólst þar upp. Maður hefur sumsé hægt og bítandi vanist því að mála sjálfan sig upp sem einhvers konar furðufugl eða feitan sel þegar talið berst að lögheimili. Maður hefur lært vegna einhvers sem kannski mætta kalla speglunaráhrif, að líta á sjálfan sig sem frávik frá langstærsta mengi þjóðarinnar sem býr á höfuborgarsvæðinu. Og vegna stærðarhlutfallanna höfum við kannski vanist þeirri pælingu að sá sem kjósi ótilneyddur að búa ekki á höfuðborgarsvæðinu hljóti að vera furðufugl eða feitur selur. Rammar ekki innlend fréttavinnsla jafnan inn muninn á okkur og hinum? Þar sem þjóðinni er skipt upp í tvo hópa. Annar lítill og furðulegur. Hinn stór og „venjulegur“. Þannig eru staðalmyndirnar.
En mig grunar að heimurinn okkar sé að breytast þótt leigubílstjórar reykvískir væru enn í karakter þegar þeir spurðu mig dag eftir dag, þessa fimm sólarhringa mína fyrir sunnan, hvort það væri ekki voðalega kalt og erfitt að búa fyrir norðan. Það var samt aðeins meira hik og annar tónn í þeim leiðandi spurningum en ég hef hreint áður. Eins og svarið væri ekki lengur alveg sjálfgefið, að ég hlyti að svara: „Jújú, ægilega kalt, ægilega erfitt, allt of fátt fólk þarna fyrir norðan en það eru fjöll þarna til að ganga á og ágætis útsýni yfir veröldina.“
Þau 20 ár sem liðin eru síðan ég flutti haustið 1996 til Akureyrar hefur mér altso fundist sem ég hafi þurft að réttlæta og útskýra hvers vegna ég kjósi að búa ekki í Reykjavík. Dagana fyrir sunnan leið mér kannski í fyrsta skipti um langt skeið eins og ég þyrfti ekki lengur að pakka í samfellda vörn. Það var annar blær yfir spurningunum. Augnaráð viðmælenda ekki eins staðfast og oft áður. Og þá fór ég að velta fyrir mér hvort Ísland stæði nú á krossgötum innan umheimsins. Hvort sunnanmenn væru ekki lengur í einátta sókn. Hvort norðamenn væru ekki lengur í einátta vörn. Hvort upp væri runnin sú ögurstund að nú værum við öll að verða íbúar í heimsþorpinu, sem er svo miklu stærra en Ísland að svör sem áður þóttu sjálfgefin við sjálfgefnum spurningum innanlands eru það ekki lengur?
Alinn upp við erlenda ferðamenn í Mývatnssveit, kippi ég mér ekki upp við þá túrista sem sannarlega hafa breytt brag Reykjavíkur síðari ár. Þeir mala gull fyrir þjóðarbúið. En að hafa þá í kring allt árið um kring skerpir kannski á þeirri hugsun að allur heimurinn sé undir. Fyrir okkur – fyrir þá. Alltaf.
Kannski höfum við nú engin efni lengur á að hegða okkur eins og tveir ósamstæðir og klofnir hópar þar sem lögheimili innbyrðis ræður liðaskiptingunni. Kannski er vegna nálægðar umheimsins ekki lengur pláss í þjóðarhagnum fyrir aðgreiningu þeirra sem hafa kosið að búa úti á landi og hinna sem hafa ekki kosið það. Ef það er þannig, gæti það leitt til að umburðarlyndi fyrir ólíku vali fari vaxandi meðal þjóðarinnar?
Þetta hugsaði sveitamaður mývetnzkur þegar hann spókaði sig um í hinni dýnamísku höfuðborg okkar landsmanna allra. Kannski gangandi villigötur líkt og þegar ég villtist í fyrstu fjárleitunum forðum að hausti. En kannski verðum við öll að finna nýjan veg, nýja leið sem áður var talin ófær. Kannski verðum við að leita leiðar aukinnar samstöðu þar sem lögð verður niður „við og hinir“ fremdarhugsunin. Hún mun litlu skila nema áframhaldandi villum. Því heimurinn allur er undir. Og við erum einfaldlega og fá og of smá til að rífast yfir því sem engu máli skiptir. Staðalmyndir innanlands byggðar á skráningu um lögheimili eru eitt af því...
(ps: Það var skítkalt á Akureyri nú í nýliðnum janúar. Þetta var kaldasti janúar frá 1995. En ef það er nóg við að vera er fínt að búa hérna – maður bara kaupir húfu, trefil og vettlinga! Að lokum þakka ég Rúv fyrir lánið á myndinni af Gísla á Uppsölum heitnum. Kannski var hann meiri heimsborgari en margur hyggur...)