Sveina björk: „ekki allir sem skilja hvað vefjagigt er - lækning mun finnast - 5 leiðir til að takast á við vefjagigt

Fyrir níu árum síðan tók líf Sveinu Björk Jóhannesdóttur miklum stakkaskiptum. Þá greindist hún með vefjagigt en fyrir veikindin var hún alltaf á fullu.

Sveina var þá ný útskrifaður einkaþjálfari og var farin að starfa sem slík. Segist hún aldrei hafa náð sjálfri sér almennilega á strik og upplifði hún alltaf verki í líkamanum sem voru ekki hinir hefðbundnu strengir eftir æfingar. Fljótlega fór að bera á svefnleysi og verkir Sveinu urðu verri. Segist hún hafa þekkt einkennin og grunaði strax hvað var að, en systir hennar er einnig með vefjagigt. 

„Þegar ég er spurð að því hvað ég geri þá segist ég gjarnan vera í heilsuleyfi vegna þess að það eru ekkert allir sem skilja hvað vefjagigt er,“ segir Sveina Björk í viðtali á þættinum Sögur af landi á Rás 1.

\"\"Sveina Björk segist vilja opna á umræðuna um sjúkdóminn en eftir greiningu voru hennar fyrstu viðbrögð mikil reiði sem hún telur sig hafa eytt of miklum tíma í. Það sé að sjálfsögðu fúlt að greinast með veikindi sem þessi en að það geti komið fyrir hvern sem er. Segir hún það mikilvægt að horfa fram á við sem fyrst. 

Það er alltaf svo gott að vera vitur eftir á. Fyrstu tvö árin fór ég þetta svolítið bara á hnefanum. Ætlaði ekkert að láta einhverja vefjagigt stoppa mig af í því sem ég var að gera, skráði mig í áframhaldandi nám eftir greiningu og svona,\" segir Sveina Björk.

Keyrði á vegg

Sveina Björk keyrði á vegg og neyddist til þess að hætta í námi, hún hélt þó áfram að vinna í 100% starfi. 

Verkirnir eru eitt en þessi yfirþyrmandi þreyta sem kemur yfir mann hún er eiginlega verst og maður vaknar dag eftir dag eins og maður hafi orðið undir valtara. Mér finnst það eiginlega verst. Það eru margir sem segja það að ef maður gæti tekið þessa þreytu í burtu þá gæti maður dílað við þessa verki. Maður er aldrei að ná neinum almennilegum nætursvefni og það segir sig sjálft að eitthvað gefur sig,\" segir Sveina Björk.

Sveina Björk kúplaði sig hægt og rólega út úr mörgum verkefnum og minnkaði starfshlutfall sitt til þess að vinna að heilsunni. Um jólin 2017 tekur hún sér svo alveg leyfi úr vinnu og er í dag í endurhæfingu. 

„Ég tala oft um að ég sé hamingjusamari heldur en ég var fyrir vefjagigt, kannski því maður leggur áherslu á það sem skiptir mann mestu máli í lífinu, sem er bara fjölskyldan og að njóta lífsins með þeim“ sagði Sveina Björk sem nýlega skrifaði undir starfslokasamning en vinnur nú að því að ná heilsu sinni aftur á ný.

Viðtalið við Sveinu Björk er hægt að hlustá á í heild sinni á spilara RÚV.

Vefjagigt er sjúkdómur sem virðist sífellt vera að aukast á meðal fólks og tók Hrinbraut saman helstu einkenni, orsakaþætti og meðferðir.

Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Samkvæmt heimasíðu Vefjagigtar eru helstu einkenni vefjagigtar langvinnir og útbreiddir verkir frá stoðkerfi, almennur stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, fótapirringur, kuldanæmi, dauðir fingur (e. Raynaud´s phenomenon), dofi í útlimum, bjúgur, kraftminnkun, úthaldsleysi, minnisleysi, einbeitingarskortur og depurð.

Einstaklingar geta þróað með sér vefjagigt á löngum tíma og án þess að viðkomandi taki eftir því í upphafi. Einkenni vefjagigtarinnar kemur og fer en fljótlega fara ný einkenni að bætast við. Hægt og rólega vindur sjúkdómurinn upp á sig og einkenni fara að gera vart við sig reglulega og í langan tíma í senn.

\"\"

Orsakaþættir

Ekki er vitað um neinn ákveðin orsakaþátt sem getur skýrt allar myndir vefjagigtar en samkvæmt heimasíðunni eru margir þættir taldir orsaka hana. Það sem er einkennandi fyrir vefjagigt er ofurnæmi í líkamanum fyrir allskyns áreitum sem talið er vera vegna truflunar í starfsemi miðtaugakerfisins.

Greinir síðan frá því að mikilvægt sé fyrir fólk að leita sér aðstoðar hjá læknum við greiningu vefjagigtar þar sem mörg einkenni hennar geta einnig verið fylgikvillar annarra sjúkdóma. Því sé mikilvægt að læknir meti hvert tilfelli fyrir sig.

Lækning mun finnast

„Það má líkja líkama með vefjagigt við rafmagnsgítar og magnara. Þegar þú tekur í strenginn á rafmagnsgítar þá er það álag á líkamann. Þeir sem eru með vefjagigt eru með magnara sem er of hátt stilltur. Fólk með vefjagigt er bara með bilaðan magnara, það er of næmt fyrir verkjum og verkirnir vara lengur.“

\"\"

Arnór Víkingsson, gigtarlæknir hjá Þraut, í samtali við DV. Þá sagði hann mikla framþróun hafa átt sér stað. Aðspurður hvort það myndi finnast lækning við sjúkdómnum. Arnór sagði:

„Ég er sannfærður um að við eigum eftir að taka miklum framförum á þessu sviði á næstu 15 árum , ef ekki fyrr. Þessi framfarir gerast í stökkum. Fyrr eða síðar mun finnast lækning.“

Þá sagði Arnór einnig að beðið væri eftir betri lyfjum og vonast til að jáeindaskanninn gerir sérfræðingum kleift að staðsetja vefjagigtina. Þá sagði Arnór að vefjagigt væri jafn raunverulegur sjúkdómur og kransæðastífla. Vísaði hann því alfarið á bug þeim hugmyndum að vefjagigt eigi sér sálrænar skýringar eða sé einhvers konar ímyndunarveiki. Slíkir fordómar auka mjög á vanlíðan sjúklinga.

Vefjagigt er ekki þunglyndi, leti, kvíði eða streita, slíkt eru fordómar en fólk getur orðið þunglynt, kvíðið, framtakslaust og stressað af stöðugum verkjum.

5 leiðir til að takast á við vefjagigt

Svefn

Slökun og náttúrulegur svefn skiptir sköpum við að minnka næmni líkamans gagnvart áreiti. Hefðbundin svefnlyf á borð við imovane og stilnoct hjálpa hins vegar ekki til, best er að ná náttúrulegum svefni með góðri slökun.

Minnka líkamlegt áreiti

Einstaklingur með vefjagigt finnur meira fyrir líkamlegu álagi en aðrir og álag sem öðrum finnst eðlilegt, eins og til dæmis að sitja lengi, getur valdið verkjum og jafnvel sársauka hjá einstaklingi með vefjagigt. Best er því að reyna að minnka líkamlegt áreiti eins mikið og hægt er.

Minnka andlegt áreiti

Mikið andlegt áreiti leiðir til streitu sem leiðir til svefnvandamála sem leiðir til meira næmis fyrir verkjum. Gott er að slaka og minnka andlegt áreiti.

Rétt líkamsþjálfun

Einstaklingur með vefjagigt getur ekki byrjað einn daginn í crossfit og farið að hjóla í vinnuna. Það þýðir ekki að viðkomandi þurfi að hætta að hreyfa sig, mikilvægt er að fara hægt af stað, lyfta léttu og passa að hreyfingin leiði ekki til óþarfa verkja. Hreyfing er hins vegar holl og stuðlar að betri svefni.

Fræðsla

Það er lykilatriði fyrir þá sem hafa vefjagigt að skilja sjúkdóminn og finna eigin mörk. Vefjagigt er flókinn sjúkdómur og því þarf hver og einn að átta sig á einkennunum og finna eigin mörk og meðferð við hæfi í samráði við heilbrigðisstarfsfólk.