Svavar Gests breytti fyrstu ljóðlínu í „Gvendur á Eyrinni“ án samráðs við höfundinn

Þorsteinn Eggertsson er án efa athafnasamasti textahöfundur í dægurtónlist á Íslandi en fyrr á þessu ári fagnaði þessi merki Íslendingur 80 ára afmæli. Hann er eldhress og gengur enn í bítlaskóm sem hann eignaðist snemma á 7. áratug síðustu aldar. Í skemmtilegu samtali við Sigurð K. Kolbeinsson þáttastjórnanda fer Þorsteinn yfir farinn veg í poppheiminum allt frá því að hann samdi texta fyrir hljómsveitina Dáta en fyrstu textar hans komu út á hljómplötu árið 1965 þar sem hann hafði samið texta við lög Savannah Tríósins. Þorsteinn segir m.a. frá því hvernig textinn að hinu vinsæla dægurlagi „Gvendur á Eyrinni“ varð til og hvernig útgefandinn Svavar Gests (SG hljómplötur) breytti fyrstu línu textans án samráðs við höfundinn en Svavari hafði þótt textinn aðeins og grófur. Einnig er skemmtilegt að hlusta á frásögn Þorsteins frá því þegar besti vinur hans Rúnar Júlíusson poppari kom í heimsókn á síðustu æviárum sínum og hafði gjarnan Whisky flösku meðferðis. Rúnar átti ekki drekka mikið af sterku áfengi vegna hjartaóþægindi svo Þorsteinn varð að sjá um þau mál.

Hlaðvarpið Lífið er lag er hægt að nálgast á Spotify sem og flestum öðrum streymisveitum og einnig á heimasíðunni ferdaskrifstofaeldriborgara.is