Þeir sem rýna í stjórnmálin á Íslandi og framgöngu stjórnmálamanna komast ekki hjá því að sjá hve heilbrigðisráðherra virðist hafa mikla ánægju af starfi sínu. Svandís birtist í fjölmiðlum og tilkynnir um breyttar reglur og nýjustu fréttir af komu bóluefnis til landsins sem halda mætti að hún hyggist gefa þjóðinni persónulega. Framganga Svandísar í fjölmiðlum er komin út yfir öll mörk. Hún virðist halda að fylgi flokks hennar aukist eftir því sem ráðherrar flokksins birtast oftar opinberlega og slá um sig.
Nú er það hins vegar komið á daginn í tilviki Vinstri grænna að fylgið hrynur af flokknum og því meira eftir því sem Svandís og Katrín koma oftar fram í fjölmiðlum. Nýjustu mælingar sýna að fylgi við flokkinn er komið niður undir sjö prósent en var um sautján prósent í síðustu kosningum. En sumum stjórnmálamönnum virðist þykja svo óskapleg gaman að ráðskast með líf og hagsmuni landsmanna að þeir sjást ekki fyrir í gleðinni.
Huginn og Muninn fjalla um þetta í dálki sínum í nýlegu Viðskiptablaði. Þar segir meðal annars:
„Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ekki víst að slakað verði á öllum takmörkunum þegar 75% bólusetningarhlutfalli verður náð. Hrafnarnir klóra sér í höfðinu yfir þessum ummæmum og velta því fyrir sér hvort ráðherra hafi misst sjónar á markmiðum aðgerðanna. Voru markmið þeirra ekki að vernda viðkæma hópa og heilbrigðiskerfið öðru fremur? Því markmiði ætti að vera að mestu náð þegar bólusetning hefur náð til viðkvæmra hópa og framlínustarfsmanna, hvað þá 75% þjóðarinnar. Það verður ekki séð að stjórnvöldum verði stætt á að viðhalda takmörkunum á einstaklinga þegar bólusetningar hafa tryggt markmið sóttvarnaraðgerða. Ef til vill fellur það ráðamönnum nú sem fyrr vel í geð að hafa hald og tök á lífi einstaklinganna.“
Ætli sé ekki mikið til í þessu? Það er alla vega full ástæða til að fylgjast vel með framgöngu og ráðstjórnartilburðum stjórnlyndra ráðamanna á næstunni þegar vonandi sér fyrir endann á veiruvandanum - svo fremi að ekki verði reynt að viðhalda ástandinu umfram efni.