Svandís Svavarsdóttir opinberar dómgreindarleysi sitt þegar hún krefst þess núna að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, víki sæti í Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd vegna þess að hann varði einn af ákærðu í svikamálum Kaupþings á sínum tíma. Áður en Brynjar var kjörinn í Alþingi vorið 2013, starfaði hann sem lögmaður og tók þá meðal annars að sér að verja Bjarka Diego sem var ákærður vegna starfa sinna hjá Kaupþingi. Nefndin hefur nú til umfjöllunar skýrslu rannsóknarnefndar um sölu Búnaðarbankans. Svandísi þykir að Brynjar sé vanhæfur til að stýra nefndinni vegna fyrri starfa sinna sem lögmaður.
Það kann vel að vera að ekki sé mjög heppilegt að Brynjar komi að þessum nefndarstörfum núna í ljósi fyrri starfa. Það er að vísu nokkuð langt seilst að halda því fram að hann geti ekki fjallað af yfirvegun um einkavæðingu Búnaðarbankans af þessum ástæðum. Hann verður að svara því sjálfur hvort hann kallar inn varamann eða ekki vegna þessa.
Hitt er svo annað mál að það kemur úr allra hörðustu átt að Svandís Svavarsdóttir krefjist þess að einhver víki sæti vegna vanhæfi. Að margra mati er hún sjálf vanhæf til að sitja á Alþingi vegna dóma sem hún hlaut í ráðherratíð sinni vegna valdníðslu. Hún var kærð og tapaði máli bæði í undirrétti og einnig fyrir Hæstarétti. Svandís er dæmd kona fyrir brot í opinberu starfi.
Kallað var eftir því að hún viki úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þegar dómur var genginn í Hæstarétti sem sakfelldi Svandísi Svavarsdóttur. Hún svaraði slíkum kröfum með skætingi og valdhroka. Jóhanna lét þess sérstaklega getið að Svandís nyti stuðnings síns og því var ekkert aðhafst. Þannig var siðferðismat þeirrar ríkisstjórnar.
Dæmdir sakamenn ættu ekki að eiga sæti á Alþingi Íslendinga – hvað þá í Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd þingsins sem á að sjá um að allt fari fram samkvæmt lögum, reglum og strangasta siðferði.
Svandís ætti frekar að víkja en Brynjar Níelsson. Og hún ætti að víkja af Alþingi.