Grillsumarið er hafið á fullum krafti og það er svo skemmtilegt að prófa nýja hluti á grillinu. Grillaður kjúklingur er mjög vinsæll hjá mörgum og hægt er að grilla kjúkling á marga vegu. Berglind Hreiðars einn af okkar vinsælustu köku- og matarbloggurum hjá Gotteri og gersemar elskar að prófa sig áfram með nýja hluti þegar kemur að því að grilla og nýjasta æði hjá henni er að grilla heilan kjúkling.
„Að grilla heilan kjúkling á útigrillinu er hreint út sagt æðisgengið. Fyrir ykkur sem ekki hafið prófað þá mæli ég 100% með. Mér finnst best að nota Weber kjúklingagrindina sem við fengum einu sinni í jólagjöf frá mömmu og pabba en þar situr kjúklingurinn vel, safinn lekur niður í grindina ef maður vill nota í sósu og minni líkur eru á að neðri hlutinn brenni. Svokallaður „Beer-Can-Chicken“ er vinsæll í Bandaríkjunum en þá er hægt að hálftæma bjórdós og láta kjúklinginn sitja á henni og slíkt má einmitt gera hér ef þið eigið ekki svona grind. Í þessari grind er hins vegar hólf sem má fylla með bjór, kryddjurtum eða öðru gómsætu til að gera kjúklinginn enn betri,“segir Berglind og bæti því jafnframt við að þessi hafi horfið á augabragði ofan í heimilisfólkið.
Girnilegur grillaði kjúklingurinn með grilluðu grænmeti og heimalagaðri grillsósu./Myndir Berglind Hreiðars.
Heilgrillaður kjúklingur
Fyrir 3-4
Kjúklingur á grilli
- 1 heill kjúklingur (um 1,8 kg)
- Ólífuolía til penslunar
- Kjúklingakrydd að eigin vali.
- ½ Stella Artois dós, eða magn sem passar í hólfið á standinum ef þið notið slíkan.
- Þerrið kjúklinginn vel, berið á hann ólífuolíu og kryddið vel allan hringinn.
- Hitið grillið í 180-200°C.
- Hellið bjór í hólfið á standinum eða opnið dósina með dósaopnara og hellið um helming bjórsins út (í glas til dæmis, haha).
- Komið kjúklingnum fyrir „sitjandi“ ofan á dósinni eða á standinum.
- Grillið við óbeinan hita við 180-200°C í lokuðu grilli í um 65-75 mínútur eða þar til kjarnhiti sýnir um 74°C.
- Leyfið kjúklingnum að standa í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið skerið í hann.
Grænmeti á grillið
- 2 sætar kartöflur
- 1 stk. rauðlaukur
- Ólífuolía
- Salt, pipar, hvítlauksduft, annað krydd (t.d rósmarín)
- Skerið kartöflurnar niður í litla teninga og laukinn í stóra bita. Blandið öllu saman á grillpönnu, veltið upp úr ólífuolíu og kryddið eftir smekk.
- Grillið við óbeinan hita í um 40 mínútur eða þar til kartöflurnar verða mjúkar (tíminn fer eftir stærð bitanna). Gott er að hræra reglulega í kartöflunum allan tímann.
Grillsósa uppskrift
- 300 g sýrður rjómi
- 2 rifin hvítlauksrif
- ½ lime (safinn)
- Salt, pipar, hvítlauksduft eftir smekk
- Pískið allt saman í skál og geymið í kæli fram að notkun.
*Allt hráefnið fæst í Bónus.