Dagur 201
Þessa dagana er ég smælandi framan í heiminn eins og enginn sé morgundagurinn. Ekki er það samt vegna Coronavírussins sem elskar Íslendinga, fremur vegna náinna samskipta við ónefndan spænskukennara sem birtist við dyrnar hjá mér fyrir nokkru síðan og hefur vart yfirgefið mig eftir það.
Þið verðið að lofa að segja engum frá lesbíunni sem býr innra með mér. Það er nefnilega leyndó því ég ekki komin út úr skápnum. Nýja sambýliskonan á við sömu vandamál að stríða. Hún er líka í skápnum og kaþólsk að auki. Eftir að móðir hennar lést árið 2018 hætti hún að þykjast hafa áhuga fyrir karlmönnum og flutti frá Vesturheimi til Tenerife þar sem systir hennar býr auk þess sem önnur systir býr á La Palma, eyjunni í norðvestri frá Tenerife.
Nýja sambýliskonan hefur tekið að sér það merkilega hlutverk að kenna mér spænsku og ég geri mitt besta að launa henni á þann hátt sem ekki er til umræðu á Facebook. Ástæða spænskukennslunnar kemur til af góðu. Hún talar nánast ekkert í ensku og enn minna í íslensku og ég tala enn enga spænsku. Samskiptin okkar á milli fara fram með hjálp Gogga translate og síðan táknmáli sem ekki er hægt að misskilja.
Spænskukennarinn minn býr yfir mörgum góðum og slæmum kostum. Hún elskar að elda góðan mat, en er með ofnæmi fyrir fiski og er það slæmur galli. Hún kann að skamma Herra Grinch á máli sem mér er ómögulegt að skilja og það er eins gott að ég hlýði henni því annars má ég búast við að verða rassskellt. Hún er samt ekkert lík eiginkonu kokksins á kútter frá Sandi sem Ragnar Bjarnason söng svo fagurlega um á sjöunda áratug síðustu aldar.
Ef þið viljið kenna einhverri um hvernig komið er fyrir mér, þá bendi ég á Lilju, mína ástkæru systur sem braut niður alla varnarmúra sem ég hafði byggt í kringum mig í áratugi á þeim fáu vikum sem hún dvaldi hjá mér í haust sem leið.
Takk Lilja mín.