Sú var tíðin í blaðamennskunni að mikið var gert með þjóðlega viðburði.
Þannig man ég starfstímann á dagblöðunum í gamla daga þegar blaðamenn voru í þorravikunni sendir út og suður að ræða við þjóðfræðinga, matreiðslufólk, menningarfrömuði og jafnvel veðurfræðinga. Teknar voru myndir af súrmat miklum í ámum sem biðu þess að koma á borð landsmanna. Rifjaðar voru upp hetjusögur af hákarlaveiðum, enda hákarl ómissandi á þorrabakkann. Það var rætt við hina og þessa sérfræðinga hvernig gleðja ætti karla á bóndadaginn, fyrsta degi þorra. Gleðin sneri oft að þorramatnum. Þá var til fólk sem fór á þrjú þorrablót. Allir blindfullir, sætir eða súrir, mikið fjör en líka ógnarstybba.
Íslensk blaðamennska hverfðist sumsé í bóndadagsvikunni ár hvert (kannski eins og aðra mánuði ársins) um að halda hinu þjóðlega á lofti. Þá ekki síst matarmenningunni. Hinni sömu matarmeningu og forsætisráðherra vor ástkær er enn með á heilanum. Hann segist helst ekki snæða erlend matvæli af ótta við eitrun, umbreytingar eða sóttir. Hann hefur hagsmuni af því að tala svoleiðis, sækir umboð sitt ekki síst til þeirra sem tengjast matvöruframleiðslu í dreifðri byggð. En blaðamaður sem hefði sömu áherslur og forsætisráðherra ætti sennilega hvegi skjól - nema þá kannski á Bændablaðinu.
Þorrinn skiptir flest ungt fólk varla nokkru máli í dag. Hvað bóndadaginn varðar sérstaklega er mun líklegra að kona baki bónda sínum ameríska súkkulaðiköku í dag en að bjóða upp á súran pung í þeirri von að sjá munnvatn renna. Þeir eru í miklum minnihluta núorðið sem leggja sér innihald þorrabakka til munns ef undan er skilið hangikjötið. Skörungurinn hún Ulla Bjakk hryllir sig ógulega ef fullorðnum dettur í hug að ota súrmeti að ungum Íslendingi.
Eitt dæmi um breytingarnar má finna í auglýsingapésum ýmiss konar þessa dagana. Veitingahús hafa mörg hver hreinlega snúið bæði bóndadegi og þorranum sem hest með bóndadegi á haus. „Elskar bóndinn þinn SUSHI?“ Spyr eitt íslenskt veitingahús sem ungur maður rekur. „Besti bóndinn“ fær þríréttaða máltíð fyrir tvo\", segir í annarri auglýsingu frá steikhúsi. Það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær hákarl og harðfiskur víkur af þorrabakka en steikur og sushi leysa af - eða hvað?
Með sama hætti og veitingahús landsins spyrja í dag, á bóndegi, Elskar bóndinn þinn sushi? – verður æ fleiri landsmönnum ljóst að einangrun landsins hefur endanlega verið rofin. Þar með er augljóst að alþjóðavæðing hefur tekið við af sérstöðunni og þar með talinni matarmenningunni. Sú þróun tók kipp frá og með EES sem og stórauknum ferðalögum Íslendinga út fyrir landsteinana og vaxandi ásókn erlendra ferðamanna hingað. Internet og sjónvarp hefur breytt miklu sem og aukin menntun sem leittur hefur til upplýsinga- og samanburðarbyltingar.
Fáum fjölmiðlum dytti í hug í dag að setja helming starfsmanna sinna í að velta sér upp úr íslenska þorranum. Sú tíð er liðin að tilhlökkun eftir þorrablótum þótti besta leiðin til að vinna á janúardrunganum. Blöð drekkja ekki lengur lesendum sínum í mysu.
Sumir munu sakna þess að hið séríslenska sé á útleið í meginstraumi. Engin ástæða er þó til að ætla að hið sérstæða og staðbundna lognist alls staðar út af þótt tilveran dragi aukinn dám af alþjóðastraumum.
Elskar bóndinn þinn sushi? á bóndadegi segir meira en mörg orð og kannski ættu stjórnmálamenn samtímans að huga að þeim skilaboðum...
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)