Súrkál fyrir sælkera hefur slegið í gegn og það má segja að súrkálsæði hafi gripið um sig hjá landanum. Bak við framreiðsluna á súrkálinu eru hjónin Dagný Hermannsdóttir og Ólafur Loftsson en þau eiga fjölskyldufyrirtækið Huxandi sem er með vörumerkið Súrkál fyrir sælkera. Sjöfn Þórðar heimsækir hjónin, Dagnýju og Ólaf á heimili þeirra í hjarta miðborgarinnar í þættinum Matur og Heimili þar sem þau segja frá tilurð súrkálsins, hvað það er og framreiðslunni.
Fékk dillu fyrir súrkáli og fór að gera tilraunir
Dagný lærði að búa til súrkál árið 1984. „En það var þó ekki fyrr en á þessari öld sem ég fékk dillu fyrir því og fór að gera tilraunir með að gerja alls kyns grænmeti,“segir Dagný og hefur jafnframt haldið fjölda námskeiða í súrkálsgerð undanfarin ár. Árið 2018 gaf Forlagið út bók hennar „Súrkál fyrir sælkera“ sem naut mikilla vinsælda og fólk er enn frekar að meta súrkálið. Ólafur, eiginmaður Dagnýjar, datt fljótlega í súrkálstunnuna með henni og líf þeirra hefur verið frekar súrt allar götur síðan að þeirra eigin sögn.
Brot af því sem í boði er, Súrkál fyrir sælkera.
Pupusas með súrkáli ómótstæðilega gott
Dagný elskar fátt meira að galdra fram ljúffenga rétti sem bornir eru fram með súrkáli og það gerir hún fyrir Sjöfn í þættinum í kvöld. Dagný býr til og ber fram framandi rétt sem ber heitið Pupusas og er þjóðarrétturinn í El Salvador og er einnig mjög algengur réttur í Hondúras. Hann borinn fram með Curtido súrkáli sem töfrar fram þetta ómótstæðilega bragð. Þetta er einfaldur réttur sem bragð er af og hrein skemmtun að galdra fram í góðra vina hópi. Súrkálið setur punktinn yfir- ið og leikur hvern sinn fingur. „Súrkál er frábært meðlæti með flestum mat. Það er ágætis regla að ef það passar á annað borð að borða grænmeti með matnum, þá er súrkál gott með honum,“segja hjónin Dagný og Ólafur sem njóta þess að vera saman í súrkálstunnunni.
Hvað skyldi þetta Pupusas vera? Meira um súrkálið og Pupusas í þættinum Matur og Heimili í kvöld klukkan 20.00.