Með hækkandi sól eigum við það til að gera vel við okkur og leyfa okkur ákveðna hluti sem ekki eru í boði aðra daga ársins. Það er að borða óhollari mat, drekka meira áfengi og stunda minni líkamsrækt. Í sumarfríinu getum við dottið úr rútínu og grunnþarfir okkar raskast. Það eru því nokkrir hlutir sem ágætt er að hafa bak við eyrð.
Það á ekki að brenna kjöt og aðra matvöru. Það er fátt jafn íslenskt eins og að draga fram grillið og jafnvel einn ískaldan með, en eins vel og það hljómar þá þarf að hafa í huga að það má ekki brenna kjötið. Ef það er komið reykbragð af kjötinu þá er það brunnið. Ástæðan fyrir þessu er að rannsóknir sýna að við bruna geta mynast skaðleg og krabbameinsvaldandi efni. Næringarefni eru einnig viðkvæm fyrir miklum hita. Líffræðileg virkni próteina breytast við mikinn hita og þau eðlissviptast. Þá missa þau næringargildi, seigja eykst og erfiðara verður að melta þau. Það á einnig við um vítamín og ensím.
Sem starfsmaður á almennri skurðdeild í sjö ár þá tók ég eftir því að með sumrinu komu fleiri inn með ristilbólgu og aðra meltingarfærakvilla. Fólk fer að láta ofan í sig mikið af grilluðum mat og áfengisneysla eykst sem er einn stærst orsakavaldur ristilbólgu. Neysla áfengis skal alltaf vera í hófi og það er um að gera að fá sér heldur svalandi þeyting með klökum í fallegu glasi.
Ekki hætta að hreyfa þig í fríinu.
Þegar við ferðumst og engin líkamsræktarstöð er sjáanleg, er einmitt fullkominn tími til að nýta fallegu náttúruna okkar. Hreyfing útidyra er ekki aðeins góð fyrir líkamann heldur einnig fyrir sálina. Aukin hreyfing hefur góð áhrif á alla líkamsstarfsemi og einnig á svefninn okkar. Góður svefn er grunnurinn að góðum degi. Yfir sumarfríið er freistandi að vaka lengur, enda mjög bjart úti, en bara að passa að við náum okkar 7-9 tímum yfir nóttina.
Það má ekki gleyma því að við erum ótrúlega heppin. Við búum á Íslandi í fallegri náttúru og hreinu lofti. Ég mæli með að nýta sumarfríin í gönguferðir, hjólaferðir og aðra útiveru. Það er bæði ódýr og yndislega skemmtileg afþreying. Setja smá nesti í körfu og fara í Heiðmörk er eitt af því skemmtilegra sem ég geri. Njótum sumarsins og hugsum vel um okkur.