Á dögunum fór þar fram sannkallað gleðihlaup, Sumarkjóla- og freyðivínshlaupið, sem var haldið í annað sinn en fyrsta hlaupið fór fram í ágúst 2019. Konur sem eiga heiðurinn af því að Prosecco-hlaupið svokallað varð að raunveruleika eru þær Birna Jónsdóttir og Rakel Jóhannsdóttir. Í þættinum Matur og heimili hitti Sjöfn Þórðar þær stöllur og fékk að heyra söguna bak við hlaupið og kíkti á stemninguna á svæðinu en hlaupið fór fram í Elliðárdalnum.
„Áramótaheitið var lengi vel að halda Prosecco-hlaup og létum við verða að því fyrir þremur árum. Við fengum okkur prosecco eitt fallegt sumarkvöld og buðum á viðburðinn á Facebook, ætluðum svo að enda hlaupið í pottinum hjá Rakel,“ segir Birna og hlær.
Þátttakan fór fljót fram úr öllum væntingum. „Rakel hafði svo mikla trú á þessu að hún sagði að allavega 200 myndu mæta. Daginn eftir höfðu 200 manns meldað sig og ég var framan af viss um að Rakel hefði ekki hætt fyrr en 200 væru búnir að skrá sig.“
Aðspurðar segja þær stöllur að forsagan af þessu hlaupi sé fyrst og fremst sú að þeim fannst vanta stemningshlaup sem auðvelt væri að taka þátt í. „Okkur fannst vanta hlaup þar sem ekki þarf að undirbúa sig eða kosta miklu til. Hver á ekki ískalda freyðivínsflösku í ísskápnum, sumarkjól og er stemningskona eins og við? Enga púlsmæla og spandex heldur bara samvera í dalnum okkar.“
Missið ekki af gleðinni hjá þátttakendum hlaupsins í þættinum Matur og heimili í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00 á Hringbraut.
Brot úr þætti kvöldsins má sjá hér: