Súkkulaðikakan á Sigló sem gestirnir missa sig yfir

Fríða Björk Gylfadóttir, sem er að alla jafna kölluð Fríða er búsett á Siglufirði ásamt eiginmanni sínum. Fríða flutti á Siglufjörð árið 1993 með fjölskyldu sinni og byrjaði þá að skapa aftur og vinna með listina eftir langt hlé en hún ólst upp í Reykjavík og hefur verið að teikna og skapa síðan hún man eftir sér. Fyrstu vinnustofuna opnaði Fríða árið 2003 og núverandi vinnustofu opnaði hún 2016 þar sem hún framleiðir konfekt og sýnir list sína. Hún hefur því samtvinnað vinnustofu sína og kaffihús í eitt. Fríða kaffihús er heitið á kaffihúsi hennar og vinnustofu. Allt konfektið og súkkulaði er handunnið á staðnum og Fríða notar einungis ferskt smjör og rjóma í fyllingar. Konfektið er því best sem ferskast og gleður bragðlaukana til hins ýtrasta. Fríða er þekkt fyrir súkkulaðigerð sína og gestir á kaffihúsi hennar hafa hreinlega misst sig yfir gómsætu konfektmolunum, heita súkkulaðinu hennar og súkkulaðikökunum. Við fengum Fríðu til að deila sögu sinni bak við Fríðu kaffihús og uppskriftinni af vinsælustu súkkulaðikökunni hennar.

Heimili - Fríða í einkennisbúningi nútímans 2020 des.jpg

Fríða í einkennisbúningi nútímans eins og hún kallar hann sjálf.

Samtvinna áhugamálin, myndlistina og konfektgerð

„Ég missti vinnuna árið 2015, en ég vann hjá bankanum hérna á Siglufirði. Eiginmanninum fannst ekki spennandi að hugsa til þess að hafa mig heimavinnandi. Hann þekkti konuna sína of vel og vissi að ég yrði búin að mála húsið fimm sinnum og skipta um innréttingar þrisvar sinnum eða væri á öxlinni á honum um að gera eitthvað, ef ég hefði ekki vinnu. Þá datt honum í hug að sameina áhugamálin mín, að búa til konfekt og myndlist og bæta góðum bolla af kaffi við. Með því að hanna og opna kaffihús á vinnustofunni minni, þar sem ég hafði verið að mála. Ég er á þeim aldri að atvinnu tækifærin liggja ekkert á lausu og bíða eftir manni svo ég ákvað að segja já. Þetta var einfaldlega of geggjuð hugmynd til að prófa hana ekki. Á meðan við biðum eftir iðnaðarmönnum þá skellti ég mér á súkkulaðiskóla í Belgíu og uppgötvaði þar þetta dásemdar súkkulaði sem ég er að vinna úr í dag sem heitir Callebaut. Það er einfaldast að segja að þetta ævintýri fór langt fram úr okkar væntingum. Við héldum að þetta yrði róleg hálfs dags vinna fyrir mig eina. Þetta varð eitthvað annað og meira og við erum oft fjögur til sex að vinna þegar mest lætur. Móttökurnar hafa verið dásamlegar, vægast sagt.“

Heimili _ Fríða kaffihús 2020 des.jpeg

Fríða kaffihús á Siglufirði.

Eiginmaðurinn var fórnarlamb

Áhugi og ástríða Fríðu skín í gegn þegar framreiðslan er skoðuð á kaffihúsinu hennar og molarnir eru hver öðrum fallegir og gómsætari. „Ég byrjaði að gera konfekt fyrir jólin fyrir svona 15 árum síðan og fannst það svo gaman að það varð að fleiri og fleiri tegundum. Stundum eftir uppskrift, stundum upp úr mér. Eiginmaður var fórnarlamb og þurfti að smakka allt hvort sem hann hafði áhuga eða ekki.“

Heimili - Fríða kaffihús konfekt molarnir.jpg

Konfektmolarnir hennar Fríðu lokka bæði auga og munn.

Aðventan afslöppuð

Aðspurð segir Fríða að aðventan sé rólegur tími hjá þeim hjónum. „Undanfarin ár hef ég verið frekar afslöppuð fyrir aðventuna, heima við. Við erum orðin tvo í kotinu og eiginmaðurinn ekki mikið fyrir kökur svo ekki er bakað mikið, nema stemningin kalli eftir því. Venjulega koma ljósin fyrst fram því sólin hverfur um 19. nóvember á Siglufirði og því gott að bæta á birtuna. Hægt og rólega kemur svo jólaskrautið.“ En er ekki rómantískt að vera í snjónum á Sigló yfir hátíðirnar? „Vissulega er birtan oft falleg og jólaljósin endurspeglast skemmtilega í snjónum. Notalegt að hafa það huggulegt með góða bók, drekka gott heitt súkkulaði, eitthvað í þeim dúr en veðurguðirnir eiga það til að æsa sig, þá er ekki mikið gaman að fara á milli húsa.“

Vinsæla súkkulaðikakan hennar Fríðu

Botn

1 bolli hveiti

3 msk. kakó

¼ bolli flórsykur

½ bolli smjör, kalt

1-2 msk. kalt vatn

Fylling

400 g súkkulaði, smátt saxað

400 ml rjómi

50 ml Whiskey/koníak eða eitthvað annað með góðu bragði

sjávarsalt til að strá yfir

Blandið saman öllu efni í botninn í hrærivélinni þar til vel blandað saman. Spreyið 23cm botn á lausbotna formi og þjappið deiginu í formið. Það verður að ná ca 3 sentimetrar upp eftir hliðinni á forminu. Kælið í 15 mínútur á meðan ofninn er hitaður í 175°C hita. Bakið við undir og yfir hita í 15 mínútur. Kælið. Hitið rjómann og súkkulaðið rólega saman í potti, þar til það er vel blandað saman og mjúkt. Hrærið þá víninu vel saman við og hellið yfir botninn. Látið standa yfir nótt og stráið sjávarsalti yfir áður en borið fram.

Gleðilega aðventu.