Þessa dagana er Sjálfstæðisflokkurinn frá sér numinn af gleði – tekist hefur að endurnýja vinstra stjórnarsamstarf með Vinstri grænum og Framsókn til fjögurra ára og kjötkatlarnir áfram innan seilingar sem og bitlingadreifararnir. Bitlingum er útdeilt á báða bóga enda má engan tíma missa því að ætla má að framundan séu erfiðir tímar sem geti jafnvel leitt til þess að núverandi ríkisstjórn fari frá og um að gera að nota völdin á meðan þau standa til boða.
Einhverra hluta vegna tók Bjarni Benediktsson upp á því að að tilnefna Jón Gunnarsson, ólöglærðan þriðja mann af lista flokksins í Kraganum, í embætti dómsmálaráðherra og gekk um leið fram hjá oddvitum flokksins í tveimur kjördæmum og nokkrum fjölda löglærða þingmanna flokksins. Svo sem venja er í seinni tíð, þegar ólöglærður maður er gerður að dómsmálaráðherra, var nafni ráðuneytisins breytt og heitir það nú Innanríkisráðuneytið. Vitaskuld er ófært að hafa ólöglærðan mann óvaldaðan í Dómsmálaráðuneytinu, hvaða nafni sem það nefnist, þannig að Jón Gunnarsson fór í að ráða sér tvo reynslubolta úr lögfræðingastétt. Annar þeirra, Hreinn Loftsson, er líkast til reyndasti aðstoðarmaður landsins og aðstoðaði síðast ungan og óreyndan, en þó löglærðan, dómsmálaráðherra. Nokkuð kom svo á óvart í vikunni þegar tilkynnt var að Brynjar Níelsson, sem féll af þingi í haust, hefði verið ráðinn til Jóns. Brynjar, sem er fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, er óvanur aðstoðarmennsku og lætur illa að vera í skugganum af öðrum. Athyglisvert er hjá Sjálfstæðisflokknum að bjóða upp á þrjá karla á sjötugsaldri sem teymið þegar helsta verkefni Dómsmálaráðuneytisins á kjörtímabilinu, samkvæmt stjórnarsáttmálanum, er að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og mismunun.
Nú velta menn því fyrir sér hvar Sigríði Andersen, öðrum löglærðum föllnum þingmanni, verði komið fyrir í kerfinu því að flokkurinn virðist vera óragur við að koma föllnum frambjóðendum í öruggt skjól.
Einnig vekur mikla athygli og blendnar tilfinningar að Ásdísi Höllu Bragadóttur, fyrrum bæjarstjóra í Garðabæ, hafi verið falið að reyna að klastra saman ráðuneyti úr þeim mismunandi verkefnum sem Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur hafa verið fengin í hendur. Ásdís er innvígð og innmúruð í innsta hring Sjálfstæðisflokksins, situr í stjórn Morgunblaðsins og hefur verið í forsvari fyrir Klínikkina, sem Kári Stefánsson kallaði „Ármúlasjoppuna“ á sínum tíma. Þá var hún eitt sinn formaður SUS. Sem sé úr innstu valdaklíku flokksins. Ljóst er að ráða verður ráðuneytisstjóra fyrir nýtt ráðuneyti og fróðlegt verður að sjá hvaða innmúraður flokksgæðingur það verður.
- Ólafur Arnarson