Styrmir skilur ekki vanda sjálfstæðisflokksins

Fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins birtir hugleiðingar sínar í blaðinu á hverjum laugardegi. Eldra fólki finnst áhugavert að lesa greinar hans enda var Styrmir Gunnarsson mikilvægur álitsgjafi á árum áður meðan Morgunblaðið var og hét og hafði útbreiðslu. Það er liðin tíð.

 

Fyrir nokkru velti Styrmir fyrir sér vanda hefðbundinna flokka bæði víða erlendis og hér heima. Hann gerði mikið úr vanda vinstri flokkanna á Íslandi en þegar kom að Sjálfstæðisflokknum virtist hann ekki koma auga á kjarna málsins. Hann segir réttilega að flokkurinn hafi „áður verið kjölfesta í íslenskum stjórnmálum“. Styrmir er þó að viðurkenna að flokkur hans sé ekki lengur kjölfesta. Það er rétt mat. Einnig segir Styrmir að flokkurinn „sé ekki svipur hjá sjón í fylgi“ og kennir hruninu um það.

 

Að kenna hruninu um veika stöðu Sjálfstæðisflokksins rúmum tíu árum eftir hrunið er vægast sagt léleg skýring og ekki bjóðandi ef menn vilja láta taka sig alvarlega. Styrmir nefnir að flokkurinn hafi ekki reynt að gera upp við hrunið að nokkru ráði. Gerð var heiðarleg tilraun til þess þegar Geir Haarde skipaði hóp undir forystu Vilhjálms Egilssonar til að greina orsakir hrunsins og koma með tillögur til úrbóta. Mikið og öflugt starf var unnið á vettvangi þessa hóps sem lagði verk sitt fram á landsfundi árið 2009. Þá brá svo við að Davíð Oddsson réðist gegn Vilhjálmi persónulega og öllu starfi nefndarinnar með fáheyrðu offorsi og varð sjálfum sér til háborinnar skammar á landsfundinum. Illu heilli fyrir flokkinn þá tókst honum að trufla þannig umræðu um málið að ekkert kom út úr henni á vettvangi flokksins. Á þessum tíma var Davíð ekki með sjálfum sér af bræði vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrimur J. Sigfússon höfðu þá nýverið látið henda honum út úr Seðlabanka Íslands þegar hann var rekinn úr embætti bankastjóra. Vert er að minnast þess að fjöldi áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum kom að gerð skýrslunnar með Vilhjálmi sem einnig fékk óhróður Davíðs framan í sig. Þar var á ferðinni fólk eins og Friðrik Sophusson, Pétur Blöndal, Sturla Böðvarsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sólveig Pétursdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson svo einhverjir séu nefndir.

 

Vandi Sjálfstæðisflokksins er einkum tvenns konar. Þröngsýn stefna, einangrunarstefna, að því er varðar gjaldmiðlamál. Hræðsla við útlendinga og einkum Evrópu er að skaða flokkinn svo og þjónkun við sérhagsmuni í landbúnaði og sjávarútvegi. Hinn meginvandi flokksins er forystan. Fólkið sem flokkurinn býður fram höfðar ekki til nógu stórs hóps kjósenda. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur mjög umdeildan feril að baki á sviði fjármála. Umdeildan eða vafasaman feril. Almenningur er ekki  lengur tilbúinn að sætta sig við slíka forystumenn. Meðal annars þess vegna er fylgi flokksins komið niður í rúmlega 20% en var lengst af á bilinu 35% til 40%. Aðrir frambjóðendur flokksins koma flestir hverjir úr þröngu umhverfi þar sem takmörkuðu baklandi er til að dreifa.

 

Á árum áður státaði Sjálfstæðisflokkurinn af öflugum forystumönnum úr verkalýðshreyfingunni í forystusveit sinni. Það voru menn á borð við Pétur Sigurðsson, Guðmund H. Garðarsson, Magnús L. Sveinsson, Guðmund Hallvarðsson og Hilmar Guðlaugsson. Nú er enginn forystumaður úr verkalýðsfélögum neins staðar nálægt forystu flokksins. Það er ekki pláss fyrir þá. Launþegahreyfingin er stærsta fjöldahreyfing landsins ásamt íþróttahreyfingunni. Sjálfstæðisflokkurinn átti öfluga fulltrúa íþróttaforystunnar í framvarðasveit sinni á árum áður, menn eins og Albert Guðmundsson, Ellert Schram, Úlfar Þórðarson, Júlíus Hafstein  og Gísla Halldórsson. Nú finnst enginn íþróttafrömuður í forystu flokksins. Til viðbótar má nefna Pál Gíslason, borgarfulltrúa og lækni, sem var skátahöfðingi á sama tíma og hann var í forystusveit Sjálfstæðisflokksins.

 

Flokkurinn hefur gleymt baklandi sínu þar sem fjöldinn er. Flokkurinn er of upptekinn við að líta eftir þröngum klíkum í kringum einangraða forystu. Það er ein meginskýringin á slöku og dvínandi fylgi.

 

Styrmir Gunnarsson þarf að koma auga á þessar staðreyndir og bera stöðuna saman við gömlu góðu tímana þegar flokkur hans hafði „Stétt með stétt“ að vígorði og naut mikils fylgis. Þeir tímar koma ekki aftur vegna þess að þröngir hagsmunir „flokkseigenda“ ráða för og hrekja fylgið annað.