Innkaupavenjur að breytast hratt

Breyttar innkaupavenjur fólks voru umræðuefni í þættinum Heimilið á Hringbraut í gærkvöld, en þar rýndi Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa í framtíðina í þessum efnum.

Fyrirtæki hans sérhæfir sig í sendingum á allskyns vörum heim til fólks, en í vöruhúsi þess er hægt að velja á milli 36 þúsund ólíkra vörunúmera, svo það er nóg til á þeim bænum, ekki súst raftækjum. Fram undan eru heimsendingar á matvöru, sem Guðmundur metur svo að muni merkja mikinn sparnað í heimilisrekstri og þá ekki síður fyrir þjóðfélagið allt; í stað þess að 150 bílar fari um götur borgarinnar, milli heimilis, vinnu og verslunar, dugi þrír sendibílar í þeim efnum - og þá hafi heimsendingar af þessu tagi það í för með sér að fólk skipuleggi innkaup sín betur og kaupi síður óþarfa.

Hann segir að nýjungar í heimsendingum blasi við úti undir sjóndeildina; sjálfkeyrandi bílar muni innan skamms fara á milli vöruhúsa og heimila á völdum tíma fyrir kúnnann sem opnar einfaldlega box með sínum kóða þegar bílinn ber að garði, en drónaflug fyrir þá sem vilja fá vöruna strax sé einnig framtíðarkostur, fyrr en menn halda; þeir lendi þá á planinu eða í garðinum á hnitmiðuðum stað, ef veður leyfir, en vísast verði það þannig á Íslandi að suma daga verði \"ekkert drónaveður.\"

Heimilið er frumsýnd öll þriðjudagskvöld klukkan 20:00, endursýnt í dag og aðgengilegt á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.