\"Það má ekki verða of mikil útgjaldaaukning\" segir fyrirsögnin á vef RÚV yfir viðtali við hagfræðing hjá Arion banka. sjá hér http://www.ruv.is/frett/thad-ma-ekki-vera-of-mikil-utgjaldaaukning Það er nú svo. Hvað er hann að tala um? Fyrsta málsgreinin segir það eiginlega allt: \"Stjórnvöld verða að forðast að leggja fram fjárlagafrumvarp með kosningaloforðum sem auka mjög ríkisútgjöld þótt það standi til að kjósa í haust. Þetta segir Hrafn Steinarsson, hagfræðingur í greiningardeild Arion banka. Það muni koma niður á kaupmætti og auka verðbólgu.\"
Samt er nú margt við þetta að athuga. Fyrst má gera jákvæðar athugasemdir. Vissulega er hættutími framundan þegar kosið verður í haust og fjárlagafrumvarpið lagt fram í þingbyrjun.
Það er eiginlega jafn öruggt og að nótt kemur eftir dag að frumvarpið verður stútfullt af loforðum um framkvæmdir út um allar koppagrundir. Líklega er þá full ástæða til að taka orð hagfræðingsins alvarlega því ef eitthvað er að marka söguna verða þetta mjög þensluvaldandi útgjöld. Sérílagi ef við skoðum ríkisfjármálasögu þessara flokka sem nú eru í ríkissjórn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Líklega mun síst skorta hugmyndaauðgi við að koma fjármunum skattgreiðenda fyrir í allskonar vaðlaheiðargöngum og blokkabyggingum í fullbyggðum bæjum og flugvallagerð við hliðina á öðrum flugvöllum að ekki sé nú talað um að malbika heim til Jóns á Hóli og taka skattfé Péturs úr ríkissjóði til að borga skuldir Páls.
Þarf þetta þó að vera svo hættulegt? Það er að auka við ríkisútgjöldin? Hvað með að setja fé í að styrkja \"innviðina\" sem svo eru kallaðir? Efla heilbrigðiskerfið sem er auðvitað mun fjölbreytilegra en að steypa hús utanum það. Efla þjónustu við aldraða. Efla menntakerfið sem líka er fjölmargt fleira en steypa utan um skólana. Bæta samgöngurnar þar sem þörfin er mest eins og að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Er líklegt að svona verkefni setji hagkerfið á hliðina?
Við komumst ekki hjá því að grípa til umfangsmikilla framkvæmda af ýmsu tagi á næstu misserum nema það komi illilega niður á okkur síðar með enn meiri útgjöldum. Eitt dæmi er stækkun flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, annað er að taka af skarið með Reykjavíkurflugvöll, það kostar fé hvað sem gert verður. Þriðja er að ljúka endurnýjun húsakosts Landspítalans við Hringbraut og hefja strax byggingu nýs spítala á nýjum stað. Hvorttveggja er orðið meira en tímabært. Öldruðum fjölgar hlutfallslega mjög ört næstu 40-50 ár. Löngu tímabært er að hefja uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila, þjónustuíbúða. Ekki viljum við fleygja foreldrum okkar, öfum og ömmum, út á Guð og gaddinn er það nokkuð?
Þetta er allt nauðsynlegt og líka mögulegt að gera án þess allt fari úr skorðum í hagkerfinu. En við gætum þurft að vera reiðubúin til að leita annarra leiða en hafa verið farnar, til dæmis í peningamálastjórnuninni og gjaldeyrismálum, almennt í forgangsröðuninni og tekjuöflun til ríkisins, hinna sameiginlegu þarfa.
Til þess þarf nýtt fólk í stjórnmálin, nýtt fólk inn á Alþingi. Kannski verður hægt að hrista mestu setlögin af Alþingi í kosningunum í haust? Hvar veit?