Stefán Jón Hafstein sem nefndur hefur verið sem mögulegur forsetaframbjóðandi, hefur ritað drápu á eigin fésbók þar sem hann fer mörgum orðum um frumvarp sem oftast er kallað „Brennivín í búðir“ um að einkaréttur til áfengissölu verði tekinn af ríkinu.
Í samantekt Stefáns Jóns eru öll helstu álitamálin reifuð. Hann ræðir aukið áreiti alka í bata ef vín og bjór yrðu á boðstólum í matvörubúðum. Heill samfélagsins sé undir að þeir haldi áfram í bata. Vel megi ræða þessa hagsmuni þótt um minnihluta sé að ræða og tefla þeim fram á móts við hagsmuni þeirra sem „nenna ekki að skipuleggja innkaup sín innan hins rúma afgreiðslutíma Ríkisins“.
Þá segir hinn mögulegi forsetaframbjóðandi að Alþjóða heilbrigðisstofnunin telji að frumvarpið sé til skaða í samfélagslegu samhengi.
Í þriðja lagi haldi frummælandinn, Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins, því fram að tilgangur frumvarpsins sé nú orðið sá fyrstur og fremstur að ,,styrkja verslun á landsbyggðinni”. „Þetta eru svo óendanlega aulaleg og langsótt rök að ég get ekki eytt tíma á þau, en sé það markmið sem lýst er má ná því fram með ótal öðrum leiðum. Basta. Enda hefur frummælandinn að eigin sögn enga reynslu af áfengisnotkun og kærir sig algjörlega kollóttan um þarfir áfengisunnenda,“ skrifar Stefán.
Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur sagt blaðamanni Hringbrautar að frumvarpið hafi verið lagt fram ekki síst til að koma á móts við ungt fólk og verslunina. Víst er að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, vakti mikla athygli þegar hún komst í fréttir vegna þeirra ummæla sinna að það væri slæmt að komast ekki út í búð til að kaupa hvítvín með humrinum á sunnudegi, ÁTVR er jú lokað á sunnudögum.
„Úrval, verð, þjónusta og skrítnar hömlur birtast í breytilegum myndum eftir áfengis-, verslunar- og vínmenningu hverrar þjóðar. Það hef ég líka séð í löndum sem ég hef skoðað með þetta í huga nýlega: Frakklandi, Hollandi, Svíþjóð, Noregi, Spáni og frekar mörgum öðrum löndum. Þannig að það er botnalus della að bera okkar ,,ófrelsi” saman við ,,frelsi í útlöndum” því allt sem af því leiðir ræðst af mörgum samverkandi menningarlegum, viðskiptalegum og félagslegum þáttum,“ skrifar Stefán Jón og eyðir þar með rökum ritara Sjálfstæðisflokksins
Þá nefnir hann að ýmsir þættir hafi leitt til þess að Ríkið leggi ekki mikið á áfengi.
„Fyrir áfengisunnanda sem býr á 300 000 manna markaði er úrvalið og þjónustan ótrúlega góð - miðað við að fá gott úrval í þokkalegu viðskiptafæri fyrir að minnsta kosti 90% þjóðarinnar, 90% af tímanum. Hvað er að? Vandamálið er að Ríkið á að ná mörgum ólíkum markmiðum í einu og það fer ekki alltaf vel saman. Takmarka aðgengi en samt hafa rúman sölutíma, koma áfengi um allt land eftir misjöfnum dreifileiðum, þjónusta vel fagurkera í vínmenningu jafnt og þá sem þekkja ekki muninn á júróbjór og kardimommudropum og þykir slíkt ekki skipta máli. Þetta tekst merkilega vel þrátt fyrir allt. Þeir sem vilja geta náð í sætusulll í hvítvínslíki eða bjórpiss með boltanum úti á næstu ÓB hraðsölu verða að gefa eftir lítið brot af þægindum sínum fyrir miklu meiri ávinning, sem er sá, að hægt er að þjónusta fleira fólk með miklu fleiri ólíkar þarfir en ef Bónus sæi um dílinn. Hér tala ég af reynslu, svo sem af því að búa á mun stærri markaði en Ísland en geta ekki keypt neitt áfengi ofar en í ruslflokki nema með ærinni fyrirhöfn. Og kostnaði.“
Ofurseldir örfáum keðjum
Niðurstaðan Stefáns Jóns er þessi:
„Íslenskir neytendur eru ofurseldir örfáum sölukeðjum fyrir matvæli og neysluvörur og þær svína miskunnarlaust á okkur eins og ótal dæmi sanna: eldsneyti, tryggingar, fjarskipti og þess háttar ekki undanskilið. Í rökræðunni um áfengi í búðum falla sumir ,,frjálslyndir” vina minna í þá gryfju að taka því sem gefnum hlut að markaður og markaðsölf virki á Íslandi. Það er sem kunnugt er fjarstæða. Auðvelt er að ímynda sér hvað gerist á áfengismarkaði um leið og Hagar taka völdin með Krónunni: Vörunúmerum (tegundavali) fækkar stórkostlega. Gæðaframboð minnkar og álagning eykst í samræmi við aðrar vörur. Auðvelt er að sýna fram á hliðstæðu: Ávaxta- og grænmetisframboðið. Innflutta frjálsa ruslinu er fleygt fyrir neytendasvínin sem róta örvæntingarfull í hvítlauksstæðum í leit að einhverju sem er ekki byrjað að spíra eða molna sundur af þurrki. Þetta er ekki skoðun heldur lifandi veruleiki fyrir hvern þann neytanda sem kaupir ávexti og grænmeti á Íslandi á okurverði.“
Einnig segir ritstjórinn fyrrverand ,,Af hverju megum við ekki kaupa rauðvín í ostabúðinni á Skólavörðustíg eða Búrinu Grandagarði, hvað er að því?” Ekkert. Sjálfum finnst mér það ekki ógalin þjónusta og myndi stundum nota hana. Nema. Nema þegar vegnir eru saman allir þessir þættir sem að ofan greinir þá segi ég sem vinur vina minna og unnandi góðra vína og drykkja: Það er ekki séns í rjúkandi helvíti að þeir sem ekki geta selt banana skammlaust geti veitt mér sama úrval vína og þjónustu með svipaðri álagningu og ÁTVR.“
Þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem Hringbraut hefur rætt við vegna frumvarpsins segjast nánast að þeir muni ekki styðja frumvarpið. Ekki er einguru um breytingar innan meirihlutans og stuðningur almennings við breytingarnar er ekki fyrir hendi samkvæmt skoðanakönnunum.
Eigi að síður hefur drjúgur tími farið í að ræða málið á síðustu þingum og mikill pirringur skapast. Einn stjórnarandstöðuþingmaður segir málið þráhyggju. Margoft áður hafa komið fram sambærileg frumvörp sem ekki reynist vilji til að samþykkja. Hefur margoft verið spurt hvort Alþingi hafi virkilega ekkert mikilvægara að ræða nú á tímum en frumvarp um brennivín í búðir sem engar líkur eru taldar á að muni renna í gegn.
„Gæti orðið enn af banabitum stjórnarinnar,“ segir háttsettur aðili í Framsóknarflokksins, sem styður eigin stjórn en ekki frumvarpið. „Það væri best að henda þessu frumvarpi út í hafsauga og halda áfram góðum verkum, svona mál eru bara að skemma fyrir okkur,“ bætir hann við.
Aðrir segja að um prinsippmál sé að ræða og tímabært sé að þoka Íslendingum út úr torfkofum hafta og frumstæðrar menningar.
En það er víst erfitt að þoka þeim til breytinga sem vilja ekki breytingar.
Samantekt: Björn Þorláksson