Stúlkurnar sem skiluðu gullinu stíga fram: vilja jafnrétti - „markmið okkar er að breyta heiminum“ - sjáðu bréfið

„Kæru foreldrar. Við stelpurnar áttum hugmyndina um að ekki taka við verðlaununum. Þetta var ekki Brynjari að kenna og okkur líður vel saman og elskum Brynjar. Þið getið ekki tekið okkur í sundur. Okkur finnst óréttlátt að þið takið dætur ykkar úr íþróttinni sem þær elska mest.“

Þannig hefst yfirlýsing stúlknanna í ÍR sem urðu Íslandsmeistarar í minnibolta stúlkna 11 ára, á Akureyri um síðustu helgi. Í bréfi ÍR-stúlknanna, sem skiluðu bikar og verðlaunapeningum eftir að hafa sigrað á Íslandsmótinu í körfuknattleik, kemur skýrt fram að frumkvæðið var að öllu leyti þeirra. Stúlkurnar skildu bikarinn og gullmedalíurnar eftir á gólfinu og gengu út. Áður hafði ein stúlkan lesið upp yfirlýsingu og vildi liðið með þessu mótmæla þeirri ákvörðun KKÍ að neita liðinu um að spila við stráka í vetur. Körfuboltastelpurnar úr ÍR hafa í tvö ár talað fyrir daufum eyrum hjá KKÍ en hér má sjá umfjöllun um þetta ótrúlega lið. Eftir að hafa lesið upp yfirlýsinguna gengu þær úr salnum.

Á RÚV segir að mótmælin hafi farið þveröfugt ofan í suma foreldra og að dæmi séu um að foreldrar ætli að taka börn sín úr liðinu. Þá sagði formaður KKÍ við Vísi sem fyrst greindi frá málinu að sambandið liti á mótmælin alvarlegum augum. Þjálfari liðsins hefur einnig verið gagnrýndur á samfélagsmiðlum en í yfirlýsingu frá stúlkunum sem Hringbraut hefur undir höndum kemur fram að stúlkurnar standa þétt við bakið á Brynjari Karli Sigurðssyni.

Stúlkurnar eru einnig ósáttar við þá foreldra sem hafa ákveðið að taka börn sín úr liðinu. Þá segjast þær hafa verið pirraðar út í KKÍ og segja sambandið hafa vanvirt liðið og þær því ákveðið að bregðast við á þennan hátt. Í yfirlýsingunni segir:

„Kannski fórum við yfir strikið en nú vitum við hvar línan er. Markmið okkar er að breyta heiminum og þá þarf maður að fara yfir strikið. Við getum ekki breytt heiminum einar án Brynjars.“

Þá vitna stúlkurnar í 12. grein barnasáttmálans þar sem segir:

1. Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
2. Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:

Kæru foreldrar

„Við stelpurnar áttum hugmyndina um að ekki taka við verðlaununum. Þetta var ekki Brynjari að kenna og okkur líður vel saman og elskum Brynjar. Þið getið ekki tekið okkur í sundur. Okkur finnst óréttlátt að þið takið dætur ykkar úr íþróttinni sem þær elska mest.“

Við erum pirraðar út í foreldrana en allir gera mistök og það er asnalegt að viðurkenna þau ekki. Við erum pirraðar að KKÍ hunsar og vanvirðir okkur og við þurftum að gera eitthvað í því. Kannski fórum við yfir strikið en nú vitum við hvar línan er.

Markmið okkar er að breyta heiminum og þá þarf maður að fara yfir strikið.

Við getum ekki breytt heiminum einar án Brynjars.

P.s. 12 grein barnasáttmálans

\"Bréf