Stríðið um vinnslustöðina heldur áfram

Í Fréttablaðinu á skírdag kemur fram að þriðjungseigendur að Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum muni leita til dómstóla vegna átaka innan fyrirtækisins sem hafa staðið í mörg ár. Bræðurnir í Brimi sem eiga 33% hlut í fyrirtækinu telja að lög hafi verið brotin við samruna Ufsabergs og Vinnslustöðvarinnar á sínum tíma en það raskaði valdahlutföllum í hluthafahópnum minnihlutanum í óhag.

Kunnugir benda á að Sigurgeir Brynjar, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, sé ábyrgur fyrir þessum leiðinlegu átökum en hann virðist ávalt velja ófrið fram yfir sátt og samstarf. Hann er nýbúinn að tapa máli gegn ríkinu í Hæstarétti upp á 515 milljónir króna vegna veiðigjalda sem voru réttilega lögð á árið 2012.

Sigurgeir Brynjar kvartar sífellt undan veiðigjöldum og álögum og hefur getið sér orð fyrir að vera helsta grátkerling sjávarútvegsins hin síðari ár. Mörgum öðrum útgerðarmönnum mislíkar málflutningur hans og telja hann valda málstað sjávarútvegsins skaða.

Vinnslustöðin greindi nýlega frá mjög góðri afkomu á síðasta ári. Hagnaður nam 1,5 milljörðum króna en EBITDA var um 2,5 milljarðar króna. Ákveðið var að greiða hluthöfum um einn milljarð króna í arð. Í ljósi þessa þykir mörgum heldur holur hljómur vera í kvörtunum og kveini Sigurgeirs Brynjars. Ljóst er að fyrirtækið þyldi að greiða mun hærri veiðigjöld í ríkissjóð.

Átökin í Vinnslustöðinni munu halda áfram en þau hafa staðið yfir árum saman og valdið fyrirtækinu ómældum skaða. Enn á ný verður barist fyrir dómstólum.

Talið er að friður komist ekki á fyrr en Sigurgeir Brynjar verður látinn víkja.