Í tilefni sumarsins boðaði Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður og matgæðingur veiðiklúbbinn sinn Strekktar línur í sumarfagnað. Kristín er annálaður fagurkeri og er þekkt sem eldhúsdrottningin, hæstaréttarlögmaðurinn sem hefur ástríðu fyrir því að töfra fram kræsingar í eldhúsinu á sinn einstaka hátt. Í þættinum Matur og heimili í kvöld lítur Sjöfn Þórðar þáttastjórnandi inn til Kristínar og fær smjörþefinn af leyndarmálum veiðiklúbbsins þegar kemur að því að töfra fram veitingar og gera sér glaðan dag.
Að sögn Kristínar eru þær tíu í klúbbnum en klúbburinn var stofnaður fyrir liðlega fjórum árum. Í klúbbnum eru Charlotta Björk, Halldóra, Hulda, Margrét, Sandra, Sólveig Unnur, Unnur Valborg, Þóra Matthildur, Þórunn ásamt Kristínu. „Við þekktumst ekki allar áður og höfum þó nokkrar kynnst gegnum þennan klúbb en stemningin í hópnum hefur verið frábær frá fyrsta kvöldi. Árlega förum við í eina skipulagða veiði saman og bröllum ýmislegt inn á milli. Strekktu línurnar eru miklir gleðigjafar og það er ótrúlega mikil gleði við völd ávallt þegar við hittumst. Veiðiferðirnar eru hreint ólýsanlegar enda fátt jafn gefandi og að vera í góðum hópi við fallega íslenska veiðiá,“ segir Kristín og telur sig ótrúlega heppna að fá að vera í þessum félagsskap.
Þegar þessi hópur hittist er allt á útopnu þegar kemur að veitingunum og svo það framsetningin. Allt svo fallega borið fram og veiðiþemað í forgrunni, þ.e.a.s. pikk nikk útlitið. Í þættinum fá áhorfendur sjá brot af hefðum og siðum veiðiklúbbsins þar sem skálað er í kampavíni og hlaðborð af kræsingunum hennar Kristínar sem veit fátt skemmtilegra en að dúlla sér við.
Missið ekki af lifandi og skemmtilegu innlit Sjafnar til veiðiklúbbsins Strekktar línur sem eru í óða önn að undirbúa sig fyrir sumarið í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 20.00. Athugið breyttan sýningartíma vegna kosningaþáttarins á undan.
Hér fyrir neðan má sjá brot úr þætti kvöldsins: