Íslenskir læknar segja frá kulnun

„Alla grunar að læknar séu undir miklu álagi eins og margar starfsstéttir. Við finnum og við vitum af rannsóknum erlendis frá að streitan er að ná til okkar meira en áður. Hugmynd Læknafélagsins er að mæla líðan lækna eftir þeim aðferðum sem forvarnir bjóða upp á og í leiðinni kanna starfsaðstæður þeirra. Á bakvið þessa hugsun er að kortleggja þessa hluti og koma síðan með tillögur um úrbætur,“ segir Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir um viðamikla könnun á líðan og starfsaðstæðum íslenskra lækna.

Könnunin, sem tók til tólf mánaða tímabils, var unnin í október síðastliðnum fyrir Læknafélag Íslands af Forvörnum ehf., undir stjórn Ólafs. Könnunin hefur sérstöðu að því leyti að verið er að skoða alla lækna í einu landi. Aldrei áður hefur verið gerð jafn djúpstæð rannsókn á íslenskum læknum.

Ólafur er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Ólafur starfar að hluta til í heilbrigðiskerfinu sem læknir en starfar einnig sem ráðgjafi í sálfélagslegri heilsuvernd og forvörnum á vinnustöðum á atvinnumarkaði.

Mikið álag

Samkvæmt könnuninni telur mikill meirihluti lækna sig vera undir of miklu álagi með tilheyrandi streitueinkennum, truflandi vanlíðan og sjúkdómseinkennum. Ólafur telur það grafalvarlegt.

„Alveg upp undir tveir þriðju hluta lækna finna fyrir ýmsum svona einkennum. Það getur verið þreyta, svefntruflun eða önnur alvarlegri einkenni streitu og kulnunar. Það er jafnvel hægt að segja að viss hluti af þessum hóp, ekki allir, eru komnir á það stig að vera með það sem heitir sjúkrastreita, þetta eru ólík stig streitu. Mér finnst merkilegt að mynstrið sem birtist í niðurstöðunum er að þetta virðist vera gegnumgangandi hjá öllum læknum. Það kom okkur örlítið á óvart að þetta gildir um alla lækna. Þess vegna verða úrbæturnar að beinast að heilbrigðiskerfinu sem heild, ekki að einstökum vinnustöðum,“ segir Ólafur.

Nánar er rætt við Ólaf í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.