Straumhvörf þegar flokkseigendur misstu völdin – breytist eitthvað þegar frá líður?

Flokkseigendur Sjálfstæðisflokksins ætluðu aldrei að sjá á eftir formannssætinu í flokki „sínum“. Lengi vel töldu þeir óhugsandi að þeirra frambjóðandi tapaði. Sægreifar, Moggaklíkan og ríka fólkið í kringum fyrrverandi formann, Bjarna Benediktsson, gerðu ekki ráð fyrir öðru en að frambjóðandi þeirra færi með sigur af hólmi – og jafnvel nokkuð örugglega. En margt fer öðru vísi en ætlað er.

Snemma varð ljóst að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dóttir Sigurbjörns Magnússonar lögmanns, sem er stjórnarformaður útgáfufélags Morgunblaðsins í umboði aðaleigendanna hjá Ísfélagi Vestmannaeyja, sæktist eftir formennsku í flokknum. Persónulegur metnaður hennar er sagður nær takmarkalaus og þurfti þessi ákvörðun því ekki að koma á óvart. Beðið var í mikilli óvissu eftir ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns og fyrrverandi ráðherra. Hann hefur mikið persónufylgi innan flokksins og hefur lengi haft í kringum sig öflugan hóp stuðningsmanna. Vitað var að byði Guðlaugur sig fram yrði hart tekist á innan flokksins. Guðlaugur lýsti því svo yfir að hann teldi rétt að leggja höfuðáherslu á að bæta samkomulagið í flokknum og tryggja meiri frið en verið hefur. Það var drengilega mælt – en andstæðingar hans grunuðu Guðlaug um græsku.

Eftir yfirlýsingu Guðlaugs Þórs gældi Áslaug Arna og hennar fólk við að gatan yrði greið og hún yrði einfaldlega hyllt á landsfundi eins og þjóðhöfðingi. Fréttir fóru þá að berast af því að mikið væri skorað á Guðrúnu Hafsteinsdóttur, þingmann og fyrrverandi dómsmálaráðherra, að gefa kost á sér. Olli það strax titringi í herbúðum flokkseigenda. Útsendarar Áslaugar nálguðust Guðrúnu og sögðu að hún mætti ekki gera þetta en ætti þess í stað að gefa kost á sér sem varaformaður. Það þótti henni engan veginn áhugavert.

Svo fór að Guðrún Hafsteinsdóttir lét slag standa, kom sá og sigraði og er nú formaður Sjálfstæðisflokksins án þess að tilheyra neinni klíku eða fylkingu. Var kjörin út á eigin verðleika, stuttan en öflugan stjórnmálaferil en hins vegar mikla og mikilsverða reynslu úr atvinnulífinu sem iðnrekandi, formaður Samtaka iðnaðarins, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, stjórnarmaður í lífeyrissjóðum og Háskólanum í Reykjavík og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Þessi mikla reynsla hlýtur að hafa ráðið úrslitum þegar landsfundarfulltrúar báru reynslu og feril hennar saman við reynsluleysi mótframbjóðandans sem fór beint úr háskóla inn á Alþingi.

Vitað er að Guðlaugur Þór Þórðarson studdi Guðrúnu heilshugar og munar um minna. Hann er nú, ásamt Guðrúnu, sterki maðurinn í Sjálfstæðisflokknum eftir að flokkseigendur hafa misst margra áratuga eignarhald sitt – í bili hið minnsta. En þeir eru ósáttir og munu trúlega ekki láta lengi kyrrt liggja. Haldi einhverjir að kominn sé á friður í Sjálfstæðisflokknum, þekkja þeir ekki sögu og eðli flokksins.

Átakasaga í Sjálfstæðisflokknum er löng og ströng. Á síðari áratugum hafa öldurnar sennilega aldrei risið eins hátt og árið 1980 þegar Gunnar Thoroddsen, varaformaður flokksins, myndaði ríkisstjórn með Framsókn og Alþýðubandalagi eftir að formanni Sjálfstæðisflokksins hafði ítrekað mistekist að mynda ríkisstjórn. Gunnar og fjórir aðrir þingmenn flokksins gengu þá til samstarfs við andstæðinga Sjálfstæðisflokksins og skildu formanninn hans og flokkinn eftir í sárum. Þá birti Morgunblaðið einstakan heilsíðuleiðara þar sem Matthías Johannessen notaði orðið BÝSNAVETUR í fyrsta sinn til að lýsa ástandinu á Íslandi veturinn 1979 til 1980 sem endaði með myndun ríkisstjórnar Gunnars. Þegar bankahrun varð á Íslandi haustið 2008 sem leiddi til falls ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og myndunar óheillastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar var talað um annan býsnavetur. Ætli sjálfstæðismenn geti nú ekki farið að tala um býsnavetur hinn þriðja 2024 til 2025 þegar Sjálfstæðisflokkurinn missti völdin og hlaut minnsta fylgi sitt í sögunni í alþingiskosningum þann 30. nóvember sl. og svo töpuðu flokkseigendur völdum í flokknum sjálfum á landsfundi?

Í kjölfar landsfundarins er óhætt að velta fyrir sér nokkrum atriðum:

  • Samkvæmt reglum flokksins ætti næsti landsfundur að óbreyttu að fara fram vorið 2027, eftir um það bil 26 mánuði. Þá verður Guðrún Hafsteinsdóttir annað hvort hyllt til áframhaldandi forystu eða þeir sem töpuðu núna munu gera atlögu að henni með einum eða öðrum hætti. Áður en þessi tími rennur upp verður trúlega búið að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort Íslendingar eigi að halda áfram aðildarviðræðum sínum við Evrópusambandið. Miðað við nýjustu skoðanakannanir verður þjóðin búin að samþykkja það, væntanlega gegn vilja þorra sjálfstæðismanna. Þá verða sveitarstjórnarkosningar löngu afstaðnar, einu ári fyrr. Á landsfundinum nú var mikið talað um að flokkurinn ætlaði að stækka og bæta við sig fylgi, meðal annars í sveitarstjórnarkosningum. En er það sjálfgefið? Svarið er nei. Í höfuðborginni búa nær 40 prósent landsmanna og því skiptir staðan þar langmestu. Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 24 prósent atkvæða, sex fulltrúa kjörna og tapaði tveimur og er nú í nöldrandi minnihluta enn á ný. Í alþingiskosningunum 30. nóvember sl. fékk flokkurinn 17 prósenta fylgi í Reykjavík, þrátt fyrir harða kosningabaráttu og öfluga lista sem leiddir voru af Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Talið er að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sé þríklofinn í borginni og því engan veginn stjórntækur. Leiðtogi flokksins í borginni, Hildur Björnsdóttir, hefur lýst því yfir að hún vilji leiða lista flokksins áfram. Það er ekkert sem bendir til þess að flokkurinn vinni nein kraftaverk í borginni og komist þar til valda í næstu kosningum.
  • Í öðrum mikilvægum sveitarfélögum gæti orðið á brattann að sækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn, einkum í þeim stærri þar sem flokkurinn hefur myndað meirihluta með Framsókn sem virðist vera í mikilli og varanlegri tilvistarkreppu. Þetta á til dæmis við um Kópavog og Hafnarfjörð sem eru númer tvö og þrjú að stærð á eftir borginni. Hrynji samstarfsflokkurinn á þessum stöðum er vandséð með hverjum Sjálfstæðisflokkurinn gæti myndað meirihluta þar sem framkoma flokksins veldur því að aðrir flokkar eru tregir til samstarfs við hann.
  • Hver sem úrslitin verða í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði vorið 2026 verður mikið horft til heildarárangurs á landsvísu þeim kosningum þegar störf Guðrúnar Hafsteinsdóttur og félaga í forystu Sjálfstæðisflokksins verða metin. Verði árangurinn ekki viðunandi þá má gera ráð fyrir áframhaldandi óeiningu og óróa í flokknum. Eins verður vitanlega horft til landsmálanna og stöðu flokka á Alþingi. Að því gefnu að núverandi ríkisstjórn haldi velli þarf ekki að gera ráð fyrir mikilli almennri stemmningu í Sjálfstæðisflokknum árin 2026 og 2027. En vitaskuld getur auðvitað enginn spáð fyrir um það á þessari stundu.
  • Hvað sem um Bjarna Benediktsson og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur má segja hverfur mikil pólitísk reynsla með þeim úr forystu flokksins. Þau hafa átt sæti á Alþingi í samtals 30 ár og verið í ríkisstjórn samtals í tæp 20 ár. Núverandi formaður hefur átt sæti á þingi í 3 ár og verið ráðherra í tæp 2 ár en varaformaðurinn er alveg nýr og óreyndur í landsmálum. Hér er um mikla breytingu að ræða. Landsfundurinn kvaddi Bjarna eins og hann hefði unnið stórkostleg afrek. En látið var undir höfuð leggjast að tala um að flokkurinn er nú í þeirri stöðu að hafa minnsta fylgi sitt á þingi í sögunni og hann er valdalaus í höfuðborginni eins og hann hefur meira og minna verið frá árinu 1994. Þegar Bjarni tók við formennsku af Geir Haarde höfðu síðustu alþingiskosningar skilað flokknum 36,6 prósenta fylgi en Bjarni skilar af sér 19,4 prósenta fylgi. Þetta er óumdeilt og því ekkert nema grátbroslegt að hann væri kvaddur eins og einhver afreksmaður. En góður er hver genginn og landsfundargestir vildu greinilega hafa þetta svona.
  • Að margra dómi flutti fráfarandi varaformaður flokksins bestu ræðuna á landsfundinum. Hún talaði af ábyrgð og yfirvegun um meðal annars ástandið í heimsmálum sem hún hefur góða yfirsýn yfir eftir að hafa gegnt stöðu utanríkisráðherra um árabil. Þórdís Kolbrún reyndi ekki að slá um sig með aumum fimmaurabröndurum sem ættu að vera fyrir neðan virðingu þeirra sem vilja vera í forystu fyrir næststærsta stjórnmálaflokk landsins. Skens á kostnað Ingu Sæland er aumt og heldur er lágkúrulegt að hrauna yfir Vinstri græna þegar þeir liggja óvígir eftir, en þeir voru þó nógu góðir fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að leiða þá vinstri stjórn sem flokkurinn sat í síðustu sjö árin þar sem ráðherrar flokksins létu fara vel um sig í mjúkum ráðherrastólum vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sósíalistaleiðtoga. Þórdís Kolbrún fór ekki niður á þetta plan. Flokkurinn hefur misst mikið þegar hún yfirgefur æðstu forystu flokksins.
  • Nú er stjórnmálasaga Bjarna Benediktssonar yngri öll. Hann óx með árunum en náði ekki að vinna sér traust þjóðarinnar og þannig verður hann trúlega dæmdur sem stjórnmálamaður þegar fram líða stundir. Sjálfur lýsti hann sér í lokaræðu sinni sem „pólitísku dýri“. Varla kemur ljón fyrst í hugann. Frekar þægileg mélkisa.

- Ólafur Arnarson