Samfylkingin siglir upp að hlið Sjálfstæðisflokksins í fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Prósents sem Fréttablaðið birti um helgina. Könnunin var gerð í síðustu viku og var útrakið 2.600 manns og svarhlutfall 51,3 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21,1 prósent fylgi en Samfylkingin með 19,1 prósent. Þessi munur er varla marktækur. Framsókn kemur síðan með 14,6 prósent fylgi, Píratar 11,8 prósent og Viðreisn með 10,6 prósent stuðning. Vinstri græn og Flokkur fólksins hafa misst mikið fylgi frá kosningunum hausti 2021, VG með 8 prósent og FF með 6,4 prósent. Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkur kæmu mönnum ekki á þing gengi þessi skoðanakönnun eftir.
Þessi niðurstaða er nokkuð í anda þess sem Fréttablaðið birti síðastliðinn föstudag þar sem Kristrún Frostadóttir reyndist vera sá íslenski stjórnmálamaður sem fólk treystir best. Hún mældist með 25,4 prósent traust og velti af toppnum Katrínu Jakobsdóttur sem mældist einungis með 17,5 prósent og Bjarni Benediktsson með 15,4 prósent.
Yrði niðurstaða Alþingiskosninga í samræmi við könnun Prósents, fengi Sjálfstæðisflokkurinn 15 menn kjörna (tapaði 2), Samfylkingin 14 menn (bætti við sig 8 frá síðustu kosningum), Framsókn fengi 10 menn kjörna (tapaði 3), Píratar fengju 8 menn (bættu við sig 2). Viðreisn fengi 7 menn kjörna (bættu við sig 2). Vinstri græn fengju 5 menn kjörna (töpuðu 3). Flokkur fólksins fengi 4 menn kjörna (tapaði 2). Aðrir flokkar fengju ekki menn kjörna.
Þetta eru svo miklar breytingar að óhætt er að tala um straumhvörf á stjórnmálasviðinu, verði framhald á þessari þróun. Það sem könnun Prósent leiðir í ljós er að ríkisstjórnin væri fallin en miðjuflokkarnir gætu myndað sterka ríkisstjórn með sama hætti og meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur er nú saman settur, þ.e. Samfylking, Framsókn, Viðreisn og Píratar með samtals 39 þingmenn á bak við slíka ríkisstjórn og 56,1 prósent fylgi samtals. Miðjan kæmi langsterkust út. Hægriflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur, fengju 25,2 prósent fylgi og 17 þingmenn en vinstri flokkarnir, VG, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn, einungis 22,5 prósent fylgi og 9 þingmenn kjörna.
Könnunin var gerð í síðustu viku þegar miklar umræður fóru fram um bankaskýrsluna langþráðu sem skiptar skoðanir voru um. Einnig verður að hafa í huga að landsfundur Sjálfstæðisflokksins er nýafstaðinn en þar fékk flokkurinn mikla og jákvæða athygli, rétt eins og Samfylkingin og Framsókn sem héldu fundi sína víku fyrr.
Miðað við þessa könnun virðast kjósendur kalla eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir fái tímabæra hvíld frá landsstjórninni. Reykjavíkurmódelið vinnur á.
- Ólafur Arnarson.