Stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson var áminntur af dómstóli Skáksambands Íslands, en úrskurður þess efnis var birtur á vef sambandsins í gær. Málið snýr að uppákomu sem átti sér stað á skákmóti á vegum Taflfélags Reykjavíkur í sumar og eftirmálum þess, en fyrir dómstólnum lá krafa um að Héðinn yrði dæmdur í allt að þriggja mánaða keppnisbann vegna málsins.
Greint var frá málinu í Fréttablaðinu í morgun.
Tilvikið sem um ræðir átti sér stað á fyrsta skákmóti Brim-mótaraðarinnar sem fór fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur í júní í sumar. Í óumdeildri úrslitaskák mótsins mættust landsliðsmennirnir Héðinn og Guðmundur Kjartansson, alþjóðlegur meistari.
Héðinn og Guðmundur hafa oft barist hatrammlega við skákborðið en venjulega hefur bardaginn verið útkljáður á borðinu. Svo var ekki í þetta skipti því þegar Héðinn kom að borðinu, nokkrum mínútum of seint, og hugðist leika fyrsta leik sinn þá taldi hann að brögð væru í tafli. Skákborðið væri ekki í miðju borðins og því dró hann það að sér og hugsaðist hefja leik. Guðmundur var ekki á þeim buxunum og dró þegar í stað borðið aftur til sína átt og þar sem hann taldi miðju borðsins vera. Toguðust keppendur á í stutta stund en kölluðu þá til skákstjóra til að leysa deiluna.
Þrátt fyrir að reyna að skjóta á miðju borðsins eftir bestu getu varð Héðinn ekki sáttur við vinnu skákstjórans og yfirgaf skáksalinn í fússi. Áður hafði hann sakað Guðmund um svindl og horft ógnandi á hann, samkvæmt gögnum málsins.
Stuttu síðar kom Héðinn aftur inn í skáksalinn og krafðist þess að skákinni yrði framhaldið en að skáklukkan, sem hafði gengið á hann allan þennan tíma, yrði endurræst og hann fengi því fullan umhugsunartíma. Þegar skákstjórinn féllst ekki á það rauk Héðinn á dyr og gaf þar með tæknilega skákina. Afleiðingin af þessu athæfi var sú að Héðni var vikið úr mótinu fyrir óíþróttamannslega framkomu.
Eftir þessa óvæntu byltu ákvað Guðmundur að ganga heim til sín í Ártúnsholtinu. Hann valdi að tefla á tvær hættur og ganga lengri leið í gegnum Elliðaárdalinn en sú leikflétta átti eftir að koma í bakið á honum. Þar gekk hann beint í flasið á Héðni sem gekk eflaust um dalinn í sömu erindagjörðum.
Um þröngan gangstíg er að ræða og því var Guðmundur í ákveðinni pattstöðu. Samkvæmt heimildum Hringbrautar heldur Guðmundur því fram að Héðinn hafi byrjað að ausa yfir sig svívirðingum, verið afar ógnandi og rifið í sig. Rétt er að geta þess að Héðinn heldur því fram að sú upplifun Guðmundar eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Hann hafi verið með slæma samvisku og í tilfinningarússi eftir því.
Óumdeilt þó er að á þessum tímapunkti sá Guðmundur sæng sína útbreidda og vippaði sér framhjá Héðni með einskonar framhjáhlaupi. Lagði hann á flótta á harðahlaupum en Héðinn hóf þegar eftirför.
Endaði sú eftirför með því að Guðmundur stöðvaði gangandi vegfarandur og fékk að hringja hjá þeim í lögreglu. Héðinn hafi þá ákveðið að yfirgefa vettvanginn en þó ekki án þess að kalla Guðmund svindlara.
Dómstóll Skáksambandsins komst að þeirri niðurstöðu að um tvö aðskilin atvik væri að ræða, rifrildið í skáksalnum og síðan uppákomuna í Elliðaárdal. Ákvað dómstóllinn að áminna Héðin fyrir hegðun sína í skáksal en fundurinn í Elliðaárdal hafi verið fyrir utan lögsögu dómstólsins.