RÚV sló því upp í fréttum í gær að Árvakur, Sýn og Torg hafi fengið hæstu fjölmiðlastyrkina þetta árið eða 67 milljónir króna hver. Úthlutunarnefnd skipti 380 milljónum króna milli 25 einkarekinna fjölmiðla, stórra og smárra.
Vert er að hafa í huga að hér er um algera smápeninga að ræða samanborið við það sem ríkissjóður styrkir RÚV um. Sú fjárhæð er hærri en fimm milljarðar árið 2022 - fimmþúsund milljónir króna. Auk þess er RÚV heimilað að fara mikinn á auglýsingamarkaði í skefjalausri samkeppni við einkarekna fjölmiðla. Það er annað en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þar eru ríkismiðlum ekki heimilað að sækja sér tekjur á auglýsingamarkaði í samkeppni við einkarekna fjölmiðla. Dæmi um það eru BBC í Bretlandi og ríkismiðlarnir á Norðurlöndum.
Hér á landi er þetta látið viðgangast ár eftir ár, áratug eftir áratug, þvert á loforð stærstu stjórnmálaflokka landsins. Þeir sem hafa sótt landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðustu áratugina kannast við ítarlegar umræður um að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði og Framsóknarflokkurinn hefur samfellt lofað aðgerðum á þessu sviði. Málefni RÚV hafa heyrt undir ráðherra flokksins síðustu fimm ár. Ekki hefur staðið á stórum yfirlýsingum ráðherrans og afgerandi loforðum á hátíðarstundum, ekki síst í aðdraganda kosninga. Ráðherranum hefur enn ekki tekist að standa við neitt af loforðunum. Því miður hefur Lilja Alfreðsdóttir einungis viðhaft stór orð en engar efndir.
Til viðbótar við það hvernig RÚV fær að valsa um án þess að veita aðhald og sparnað í rekstri eins og aðrir verða að gera, hefur erlendum fjölmiðlum verið leyft að selja þjónustu sína á íslenskum auglýsingamarkaði án þess að greiða virðisaukaskatt eins og innlendum keppinautum er uppálagt að gera. Með því skekkist samkeppnisstaðan enn frekar. Geti íslenska kerfið ekki fundið leið til að innheimta skatta af þessari erlendu starfsemi, er einungis um eina leið að ræða til að gæta jafnræðis. Það er að afnema virðisaukaskatt af innlendum fjölmiðlum.
Íslenskir fjölmiðlar, smáir og stórir, vinna allir mikil þjóðþrifaverk með því að halda úti starfsemi sinni á íslensku á hinu örsmáa málsvæði íslenskunnar. Það er oft rifjað upp við hátíðleg tækifæri, jafnt af menntamálaráðherra, öðrum ráðherrum og stjórnmálaleiðtogum að ógleymdum forseta lýðveldisins. Falleg orð falla um verndun tungumálsins og mikilvægi lýðræðislegra skoðanaskipta í frjálsum miðlum. Það vantar sjaldnast orð. En það vantar ávallt efndir og gildir þá einu hvaða stjórnmálaflokkar eru við völd.
Sá rekstrarstuðningur sem ríkið hefur veitt einkareknum fjölmiðlum, og skiptist nú í 25 staði, breytir sáralitlu þegar á heildina er litið. Nú var útdeilt 380 milljónum á 25 aðila. RÚV eitt fær 5.400 milljónir á þessu ári. Ástæða þótti til að minnka þá fjárhæð sem kom í hlut einkarekinna miðla þrátt fyrir 10 prósent verðbólgu. Allir miðlar fengu nú lægri fjárhæð í sinn hlut heldur en í fyrra. Þó með einni undantekningu: Framlag til Bændablaðsins hækkaði verulega!
Í umræðum á Alþingi í fyrra þegar samþykktar voru hækkanir til RÚV, komu fram fyrirspurnir um nauðsyn þess að hækka framlög til þessarar ríkisstofnunar um mörg hundruð milljónir króna. Þá var svarið það að bæta þyrfti stofnuninni þær launahækkanir sem orðið höfðu og vegna áhrifa verðbólgu. Engum datt í hug að ríkisstofnunin ætti að spara og draga úr kostnaði eins og önnur fyrirtæki gera og þurfa að gera.
- Ólafur Arnarson.