Stórfenglegt jólahátíðarborð með berjaliti í forgrunni

Elva Hrund Ágústsdóttir starfar sem blaðamaður og stíllisti og er fagurkeri út í fingurgóma. Við fengum Elvu til að svipta hulunni af hátíðarborðinu sínu í ár. „Ég veit fátt skemmtilegra en að hanna rými og fá tækifæri til að endurraða og þá hagræða hlutum, til að létta á þeirri sýn sem fyrir augum er.“ Elva hugsar fyrir hverju smáatriði og hefur listrænt auga þegar kemur að því að raða upp hlutum og formum og láta ólíka litatóna að flæða saman.

Lifandi blóm og berjalitaður dúkur í forgrunni

„Þegar ég legg af stað í að dekka borð, þá ræðst útkoman oftar en ekki á einhverjum hlut sem mig langar til að skreyta með. Í ár var það „úfin“ blómaskreyting og berjalitaður dúkur sem ég vildi koma á borðið. Ég var með ákveðin lit á dúk í huga og hætti ekki að leita fyrr en ég á endanum fann hörefni í rétta litnum og saumaði. Eftir það kom hitt af sjálfu sér. Ég ætlaði mér upphaflega að fara í ljóst og lystugt þema, en endaði í dökkum og dulúðlegum stíl. Hér er ég að vinna með svarta diska, villta blómaskreytingu og furugreinar til skrauts í bland við kristalsglös og handrennda íslenska keramík sem setur punktinn yfir i-ið.

Fersk blóm og lifandi greni ómissandi

Elva er ekki fastheldin í litavali þegar kemur að því að dekka hátíðarborðið. „Það breytist á hverju ári. Þó að diskar og hnífapör séu meira og minna sami grunnurinn, þá getur dúkurinn breyst, litaval á kertum, kertastjakar, skálar, glös og servíettur. Þetta eru allt hlutir sem hægt er að leika sér með á marga vegu. Annars finnst mér alveg ómissandi að hafa fersk blóm og greni. Það er fátt sem jafnast á við blómailm þegar sest er til borðs, fyrir utan hvað blóm eru mikil skreyting út af fyrir sig og það þarf varla neitt annað.“

Vel dekkað borð eins og forréttur

Elvu er mikið í mun að borðgestum líði vel og njótið þess að sitja við borðhaldið. „Ég vil fyrst og fremst að fólkinu við borðið líði vel. Það jafnast ekkert á við að sjá gleðina hjá þeim sem setjast til borðs, og fylgjast með gestunum virða fyrir sér skreytingarnar. Þá hefur manni tekist vel til. Vel dekkað borð er eins og góður forréttur í mínum huga.

M&H Elva Hrund Ágústsdóttir mynd 1.jpeg

Svarta matarstellið er frá Bloomingville og kristalsglösin eru frá Frederik Bagger. Skálin undir blómin er hönnun frá By Lassen og er einnig nothæf undir mat.

M&H Elva mynd 2.jpeg

Elva mælir með að skreyta glösin með rósmaríngreinum og granateplakjörnum til að fá enn meiri jólastemningu á borðið.

M&H Elva mynd 3.jpeg

Hér má sjá hvernig blómaskreytingin verður miðpunkturinn á veisluborðinu á berjalituðum dúknum. Blómaskreytinguna gerði Hrafnhildur Þorleifsdóttir hjá Blómagallerí við Hagamel.

M&H Elva Hrund Ágústsdóttir mynd 4.jpeg

Elva er smekkmanneskja út í fingurgóma, mikill fagurkeri og þykir fátt skemmtilegra en að dekka upp hátíðarborð.

M&H Elva Hrund ágústsdóttir mynd 5.jpeg

Íslensk hönnun á matarborðið. Handgerð póstulíns jólatré og kertastjakar frá KER, hér með extra háum kertum sem gerir borðhaldið enn hátíðlegra. Elva gerir íslenskri hönnun ávallt hátt undir höfði og fylgist vel með hönnuðum og verkum þeirra.

Myndir aðsendar, Elva Hrund Ágústsdóttir.