Stóra prófið fram undan hjá pírötum


Þras og deilur innan Píratahreyfingarinnar eru áskoranir sem hreyfingin þarf að koma skikk á. Einkum er það brýnt nú þegar líður að prófkjörum. Fyrir flokk sem hefur borið umbótavonir 25%-40% landsmanna á grönnum og fjárvana herðum sínum er brýnt að flokksmenn taki sér nú tak og skilji kjarnann frá hisminu. Þetta segja Píratar sjálfir, grasrótarfólk og nýlegir meðlimir í samtölum við Hringbraut.

Í gær var kynnt ný fylgiskönnun Gallup sem sýnir að fylgi Pírata er á niðurleið. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn jafnstór Pírötum í fyrsta sinn síðan í apríl í fyrra. Á sex vikum hefur fylgi Pírata fallið um 10% en í sumum könnunum árið 2015 slagaði fylgið í 40% þegar best lét.  Deilt er um meðal hreyfingarinnar hvað skýri. Fyrir samtök sem hafa rómantíserað þá hugmynd að starfa sem höfuðlaus her getur hver og einn Pírati haft nokkuð að segja um gang mála, bæði til góðs og ills.

Samtöl sem Hringbraut hefur átt við Pírata úr ýmsum áttum benda til að samskipti gætu verið betri á sumum vígstöðvum innan hreyfingar Pírata. Hermt er að Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmenn hafi náð sáttum eftir frægan fjölmiðlahvell fyrir nokkrum vikum. Ásta Guðrún Helgadóttir, þriðji þingmaðurinn sem tók við af Jóni Þór þegar hann fór aftur í malbikið, er sögð vinna afar mikilvægt starf. Illdeilur og ósætti eru því ekki vandi í þingmannahópnum heldur \"neðar í fæðukeðjunni núna\" eins og einn viðmælandi orðar það. Formaður framkvæmdaráðs Pírata hætti nýverið og gaf sú ákvörðun tilefni til naflaskoðunar svo vitnað sé til Pírata sjálfra. Aðrar deilur eru raktar til sundurlyndis \"bara af því að sumir hafa gaman af að deila um alla hluti\" eins og einn orðar það.

Átakamál eru sum hver skýrð með veraldlegum ástæðum líkt og að sjálfboðavinna sé að sliga suma félagsmenn. Þá virki tölvukerfi innan hreyfingarinnar ekki sem skyldi. Skipulag og skráning og þá ekki síst félagatalið sjálft sé í rúst. Dæmi séu um að eldar logi innan svæðissambanda og tengist yfirvofandi prófkjörum.

Valdaspenna fram undan
\"Það væri stórfrétt ef ekki væru akkúrat núna að skapast ný átök í kringum prófkjörin sem eru fram undan. Það á sama við um pírata sem aðra flokka að þegar kemur að takmörkun útdeildra gæða þá hrökkva menn í ýmsa gíra og þeir eru ekki allir frýnilegir,\" segir einn flokksmanna Pírata.

Sá hinn sami segir veraldegt streð sjúga of mikla orku frá flokksmönnum. Flokkurinn eigi enga peninga til að greiða forriturum fyrir vinnu sem þurfi að vinna. Sú forritunarivnna sem hafi verið unnin hjá Pírötum sé sjálfboðavinna og þegar menn starfi mánuðum saman launalaust geti skapast núningur. Aðalforritarinn í hópnum og sá sem hafi gefið mesta sína vinnu sé Helgi Hrafn sem sé bissí á þingi. Þetta sé eitt vandamálanna, segir Pírati og bætir við að allt hafi breyst þegar dverghreyfingin fór að mælast með þriðjungs fylgi hjá þjóðinni. Það hafi sumpart orðið dýrkeypt vegsemd.

Úr dverg í regnhlíf nýrrar vonar

Draumur um umbætur knúði Pírata áfram þegar flokkurinn var dvergflokkur. Samfélagsleg ábyrgð, frelsi, gagnsæi og aukið lýðræði voru töfraorðin. Nú eru uppi efasemdir um að \"allt þetta lýðræði innan flokksins sé til bóta\" eins og einn orðar það.

Völd eru innan seilingar hjá Pírötum, mikil völd jafnvel sem og batnandi efnahagur fyrir þá sem skapa sér part af kökunni. Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, sá því ekkert til fyrirstöðu í nýlegu viðtali við Hringbraut að Birgitta yrði næsti forsætisráðherra. Staða þingmannanna þriggja er talin nokkuð sterk en minni spámenn munu berjast um sæti í prófkjörum. \"Hjaðningarvíg munu fara fram bæði í beinni útsendingu sem og bak við luktar dyr,\" svo vitnað sé til eins Pírata sem Hringbraut ræddi við en viðmælendur kusu allir nafnleynd. Flokkur sem hefur hafnað greiðslum í því skyni að spara ríkiskassanum fé og veita gott fordæmi hefur ekki enn komið sér saman um ráðningu framkvæmdastjóra og það er líka nefnt sem vandi. Ein skýringin er sögð að fé skorti en önnur skýring er nefnd að ósætti hafi orðið til þess að ekki var ráðinn framkvæmdastjóri eins og til stóð á dögunum.

Þrasgirnin sögð hjartagalli

\"Þrasfýsni og ákvarðanafælni eru hjartagallar í þessum flokki en samt er þetta afl það skásta sem er í boði,\" segir einn félagsmanna. Hann bætir við: \"En ég hef ekki alveg nógu góða tilfinningu fyrir því að hópur fólks sem ætlar sér að framkvæma stórkostlega hluti ef hann kemst til valda eigi svo erfitt með að framkvæma bara smávægilega hluti hérna í félagsstarfinu hjá okkur.\"

Of mikið lýðræði?
Aðalfundur Pírata fer fram í næsta mánuði. Flestir sem Hringbraut hefur rætt við telja meiri líkur en minni á að átök síðustu vikna verði til þess að menn \"sparki í rassgatið á sér og átti sig á að félagsstarfið hefur borið aðeins af leið\" eins og einn orðar það. Mikilvægt er sagt að tekin verði hreinskilin umræða um stöðuna og að meðvirkni verði ýtt út í veður og vind.
\"Þessi aðferðafræði að allir verði alltaf að vera sammála og að allir geti komið að skoðun er í raun sama aðferðafræði og gömlu valdaflokkarnir hafa notað sem afsökun fyrir því að breyta ekki stjórnarskránni. Það er alltaf notað sem afsökun að ræða verði málin betur og svo liggur allt í salti. Í því ljósi má segja að of mikið lýðræði hafi orðið vandamál hjá okkur,\" segir kona í hópi Pírata.

Girt fyrir smölun
Nokkuð hefur verið varað við því að svokallaðir lukkuriddarar banki nú upp á hjá Pírötum í von um þingsæti. Til að bregðast við þessu verða einhverjar girðingar víðast settar upp til að koma í veg fyrir smölun.
\"Það er bara eitt sem ég get staðhæft um framtíð Pírata. Þetta verður eitthvað. Við vitum bara ekki alveg hvað!\" segir ungur maður í hópi Pírata.\"

Miðaldra kona sem styður Pírata orðar stöðuna þannig: \"Stóra prófið er fram undan. Það var vitað að þegar drægi að kosningum þyrftum við að sökkva okkur í námsefnið og verkefnin. Við erum að horfa á einstætt tækifæri til að leysa upp fjórflokkakerfið þannig að ábyrgðin er mikil.\"
Samantekt: Björn Þorláksson