Í vikunni var opnuð sýning á stólum eftir Hjalta Geir Kristjánsson að Laugavegi 13. Sýningarstaðurinn er viðeigandi en þar var Húsgagnaverslun Kristjáns Siggeirssonar til húsa í áratugi, en Hjalti Geir var sonur stofnandans og stýrði fyrirtækinu í næstum hálfa öld, auk þess að vera hönnuður þess.
Hjalti Geir var merkur brautryðjandi á sviði hönnunar og viðskipta og auk stóla hans eru á sýningunni vandaðar og skemmtilega fram settar upplýsingar um æviferil hans og myndir úr lífi hans.
Hjalti Geir Kristjánsson lést 13. október 2020, 94 ára að aldri.
Sýningin stendur fram á sunnudag. Hún er hluti af Hönnunarmars. Jóhanna Vigdís Ragnhikdardóttir, hönnuður og barnabarn Hjalta Geirs hafði veg og vanda af uppsetningu sýningarinnar sem einnig nýtur stuðnings frá Epal.