Stökkar og brakandi Ketó vöfflur með ljúffengri súkkulaðismyrju

Eins og við flest þekkjum er matur mannsins megin og eins og við erum mörg og ólík, þá er mismunandi hvað hentar hverjum og einum. Það er ávallt ánægjulegt þegar fólk finnur þann lífsstíl sem hentar þeim best og eykur vellíðan, úthald og umfram allt að það finni sína hillu þegar það kemur að mataræðinu. Ketó mataræðið er einn lífsstíllinn sem margir kjósa sér í dag. Hanna Þóra Helgadóttir matarbloggari og rithöfundur er ein þeirra sem breytti um stefnu í sínu mataræði og byrjaði á Ketó mataræði. Sjöfn Þórðar heimsótti Hönnu Þóru heim í eldhúsið á dögunum í þættinum Matur & Heimili og fékk innsýn í lífstíl hennar. Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni hér: Matur & Heimili

M&H Hanna Þóra Helgadóttir & Ketó vöfflurnar.png

Hanna Þóra Helgadóttir og Sjöfn Þórðar í þættinum Matur og Heimili.

Hefur ánægju af því að dunda sér í eldhúsinu og búa til uppskriftir

„Ég hef alltaf verið matarmegin í lífinu og ég fann mína hillu þegar ég prófaði Ketó mataræðið fyrst fyrir tveimur árum. Ketó mataræðið hentar mér afskaplega vel segir Hanna Þóra sem uppgvötaði fljótt að hægt væri að njóta matar á ketó mataræði en á sama tíma að upplifa miklar breytingar á heilsufarinu til hins betra. „Mér finnst svo gaman að dunda mér í eldhúsinu og búa til uppskriftir sem passa innan rammans að vera sykur og hveitilausar ásamt því að vera lágar í kolvetnum.“ Hanna Þóra er matarbloggari og nýlega opnaði hún nýja heimasíðu www.hannathora.is þar sem hún deilir meðal annars uppskriftum sem hún hefur tekið saman, sem allar innihalda Ketó. „Ástríðan hefur svo fengið nýjar hæðir með matreiðslubókinni minni, Ketó, sem er á leiðinni í verslanir fyrir jólin.“

Sykur og glúteinlausar vöfflur í belgískum stíl í uppáhaldi

Í þættinum Matur & Heimili svipti Hanna Þóra hulunni af því sem henni finnst best að fá sér með helgarkaffinu. „Mér finnst æðislegt að baka góðar vöfflur um helgar sem er bæði einfalt og fljótlegt að græja og ég á alltaf allt til í baksturinn. Ketóvöfflur eru sykur og glúteinlausar og ættu því að henta flestum.“

Til að toppa vöfflurnar sem eru í belgískum stíl lagar Hanna Þóra súkkulaðismyrju til að smyrja ofan á vöfflurnar sem slær alltaf í gegn. „Súkkulaðismyrjan er sívinsæl á mínum heimili og er tilvalin til að nota ofan á vöfflur eða sem heit sósa með ís. Hún er að sjálfsögðu sykurlaus og hentar vel fyrir ketó mataræðið.“

Góðar æskuminningar um vöfflur upphafið að ketó vöfflunum

Fyrir mér snýst þessi lífsstíll, að vera á ketó mataræði, um að geta lifað með honum í sátt og samlyndi með fjölskyldulífinu. Það hefur lengi verið hefð fyrir því að fá sér eitthvað gott með kaffinu um helgar og þá langaði mig að geta gert eitthvað einfalt og fljótlegt sem hentar öllum í fjölskyldunni. Ég á svo margar góðar vöfflu minningar úr æsku og ég hugsa að þær séu í svona miklu uppáhaldi þess vegna.“ Á tímum sem þessum þá er samverustundirnar með fjölskyldunni gæðastundir og þá er einmitt ljúft að baka saman vöfflur til að njóta.

Vanilluvöfflur að hætti Hönnu Þóru

2 egg

2 tsk. lyftiduft

1 tsk. stevía með vanillubragði

1 msk. sykurlaust sýróp

20 g smjör brætt

1 og ½ dl möndlumjöl

Hrærið öllum innihaldsefnunum saman og bakið vöfflurnar í vöfflujárni. Gott er að setja smá smjör á járnið á undan. Það er auðvelt að frysta ketóvöfflur og skella í brauðristina eftir þörfum.

Súkkulaðismyrja

1 peli rjómi

1 plata sykurlaust súkkulaði að eigin vali

3 msk. sykurlaust sýróp

Sjóðið allt saman í litlum potti og leyfið blöndunni að kólna aðeins.

Súkkulaðismyrjuna er bæði hægt að bera fram með vöfflum og ís. Vöfflurnar með súkkulaðismyrjunni má framreiða með rjóma, bláberjum og jarðaberjum.

Verið ykkur að góðu.