„Tollfrjáls“ innflutningskvóti fyrir landbúnaðarvörur sem fluttar eru inn frá Evrópusambandinu hækkar enn í verði milli ára. Útboðsgjaldið, sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir kvótann, hækkar í mörgum tilvikum um 15-20%.
Þetta segir í tilkynningu Félags atvinnurekenda sem mótmælir harðlega þessum auknu álögum hér á landi, fyrirtækjum of fólki til tjóns. Þessi hækkun fari enda beint út í verðlagið og éti upp þann hag sem neytendur áttu að hafa af tollfrelsinu. Ætla megi að um 330 milljónir króna renni úr vösum neytenda og í ríkissjóð vegna útboðsgjaldsins.
\"Félag atvinnurekenda hefur gert samanburð á niðurstöðum útboða á tollfrjálsum innflutningskvóta á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu fyrir árin 2014 til 2016, en niðurstöður úr nýjasta útboðinu voru tilkynntar fyrir skömmu. Íslenskum stjórnvöldum ber að heimila tollfrjálsan innflutning á takmörkuðu magni af búvörum frá ESB-ríkjum samkvæmt tvíhliða samkomulagi, sem gert var við ESB á grundvelli 19. greinar EES-samningsins. Nýtt samkomulag við ESB, sem gert var á árinu, tekur væntanlega ekki gildi fyrr en 2017 og er því tollkvótinn sem kemur til úthlutunar fyrir 2016 sá sami og undanfarin ár,\" segir í tilkynningu félagsins.
FA segir niðurstöðu samanburðarins í stuttu máli vera þessa: \"Áfram er mikil umframeftirspurn innflutningsfyrirtækja eftir að fá að flytja inn búvörur frá ríkjum ESB; innflutningsfyrirtæki sóttu í sumum tilvikum um fjór- til fimmfalt það magn sem er í boði. Í sumum vöruflokkum dregst eftirspurn þó saman frá því í fyrra. Ástæður þess geta verið margvíslegar, til dæmis opnir tollkvótar sem hafa verið gefnir út fyrir nauta-, svína- og alifuglakjöt vegna skorts á innanlandsmarkaði.\"