Allir sem eitthvað fylgjast með pólitík á Íslandi vita að Illugi Gunnarsson, fráfarandi menntamálaráðherra, segir ósatt þegar hann heldur því fram að hann hafi ákveðið að skipta um starfsvettvang núna vegna þess að hann vilji ekki vera lengur stjórnmálamaður. Illugi er að hrökklast út úr stjórnmálum vegna tengsla við Orka Energy. Allir fjölmiðlar landsins hafa fjallað um vandræðamál Illuga í meira en heilt ár og hann gerði sér ljóst að hann yrði felldur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Jafnvel var talið að hann gæti lent í 5. eða 6. sæti sem hefði orðið söguleg útreið fyrir sitjandi ráðherra flokksins.
Illugi hefur haft mikinn og nær takmarkalausan metnað í stjórnmálum. Hann ætlaði sér alltaf á toppinn í Sjálfstæðisflokknum og hann fór ekki dult með það að hann og Bjarni Benediktsson ættu að verða “Ólafur & Bjarni” nýrra tíma í flokknum. En margt fer öðru vísi en ætlað er. Hvorki Bjarni fjármálaráðherra né Illugi hafa snefil af þeim leiðtogahæfileikum sem gömlu leiðtogarnir höfðu. Auk þess hefur Illugi klúðrað ferli sínum með því fjármálasukki sem hann hefur orðið uppvís að. Hann reyndi að dylja sannleika málsins lengi vel og hélt að hann kæmist upp með að svara fjölmiðlum ekki eða þá með útúrsnúningum. Á endanum varð hann að koma fram og viðurkenna sitthvað af því klúðri sem hann hafði komið sér í. Eftir það mátti honum og öllum öðrum vera ljóst að dagar hans í stjórnmálum væru brátt taldir. Og nú eru þeir taldir.
Á undanförnum vikum og mánuðum hefur Illugi leitað útgönguleiða úr stjórnmálunum. Þannig var reynt að koma honum að sem framkvæmdastjóra Samtaka sjávarútvegsfyrirtækja en þar er staða framkvædastjóra laus. Einhverjir úr hópi sjávarútvegsmanna munu hafa talað fyrir því að ráða Illuga en það mætti mikilli fyrirstöðu. Hermt er að Kristján Loftsson hafi “verið viti sínu fjær”, eins og það var orðað, þegar hugmyndin var borin upp við hann. Niðurstaða Samtaka sjávarútvegsfyrirtækja var sú að forðast að ráða framkvæmdastjóra sem ætti umdeildan feril að baka í stjórnmálum. Samtökin þyrftu á öðru að halda.
Dagfari spáir því að Sjálfstæðisflokkurinn muni koma Illuga í starf sem tilkynnt verður um í vikunni eftir kosningar, áður en ný ríkisstjórn verður mynduð. Þá verður Illugi Gunnarsson skipaður sendiherra. Á þessari stundu er ekki vitað hvert hann verður sendur.
Pólitísk arfleifð Illuga Gunnarssonar er ekki merkileg þegar hann hverfur nú af sviðinu. Hún verður fljót að gleymast. Henni verður ekki betur lýst í stuttu máli en Jónas Kristjánsson gerði í pistli undir fyrirsögninni Farið hefur fé betra.