Það er alltaf tími fyrir eftirlit gagnvart þeim sem fara með vald en sá tími er mismikill. Í neyðarástandi er sá tími tvímælalaust minni en annars vegna þess að neyðarástandið krefur fólk um eins óskipta athygli og hægt er að gefa, annars væri ekki um neyðarástand að ræða.
Með það í huga þá haga ég eftirliti mínu og yfirlýsingum um hvað væri mest og best að gera. Eftirlitið minnkar ekki, en eðli þess breytist úr því að að grandskoða ákvarðanir dagsins í dag áður en þær eru teknar í að horfa meira í baksýnisspegilinn. Að gefa stjórnvöldum svigrúm til þess að sinna neyðarástandinu á sama tíma og ég reyni að fullvissa mig um að stjórnvöld séu að vinna samkvæmt bestu mögulegu ráðleggingum.
Í neyðarástandi þá breytist margt mjög hratt. Það er annað einkenni neyðarástands. Það þýðir að ákvörðun sem var tekin fyrir stuttu síðan er augljóslega röng með tilliti til breyttra aðstæðna. Það þýðir ekki að neitt rangt hafi verið gert þegar ákvörðun var tekin. Það þýðir bara að upplýsingar voru ekki nægilega góðar til þess að sjá fyrir þá þróun sem raungerðist.
Sumir kalla nefnilega eftir harðari viðbrögðum. Aðrir ekki. Flestir af þeim byggja þær kröfur á eigin hyggjuviti og það er allt gott og blessað með það. Það er auðvelt að vera vitur eftir á og það er auðvelt í núverandi aðstæðum að leggja til ýtrustu viðbrögð sem mögulegt er að grípa til. Ég gæti hæglega kallað eftir ítrustu aðgerðum og þegar öllu er aflokið, klappað mér á bakið og sagt að allt hefði nú farið betur ef bara hefði verið hlustað á mig. Það er hins vegar mjög óábyrgt að gera í neyðarástandi. Það er ekkert sem bendir til þess að stjórnvöld dragi úr því að grípa til viðeigandi aðgerða. Að stjórnvöld fari ekki eftir bestu ráðleggingum sem í boði eru (ef það kemur í ljós eftirá, þá ætla ég rétt að vona að fólk taki nú loksins pólitíska ábyrgð).
Ég styð stjórnvöld til þess að grípa til hvaða aðgerða sem þarf, hvaða aðgerða sem bestu ráðleggingar sérfræðinga segja til um. Ég beiti ekki eigin tilfinningarökum á einn veg eða annan því ég hef ekki aðgang að meiri upplýsingum en koma fram á daglegum upplýsingafundi almannavarna. Þau sem eru að taka ákvarðanir í þessu eru með allar þær upplýsingar og fleiri til. Ef það þarf að loka flugvöllum, þá þarf þess. Ef það þarf útgöngubann, þá þarf þess. Það eru auðvitað gríðarlega alvarlegar aðgerðir en ástandið gæti krafist þess. Eftirá þarf hins vegar að skoða hvort gripið var til viðeigandi aðgerða hverju sinni. Fólki fyrirgefst yfirleitt varkárni, það er að segja að vera frekar of- heldur en van-.
Í aðeins færri orðum, það væri pólitísk keiluspil að kalla eftir ítrustu viðbrögðum. Fólk sem gerir slíkt hefur ekki forsendur til þess að krefjast þess. Það gæti hins vegar verið að það sé rétt ágiskun þegar allt kemur til alls. Það breytir því ekki að það er ágiskun. Ódýr ágiskun. Óábyrg ágiskun. Það eru stjórnmál sem við þurfum ekki á að halda í dag. Við þurfum stjórnmál sem þora að treysta og þora að bera ábyrgð. Ég kýs að treysta því að stjórnvöld séu að fara eftir bestu ráðleggingum þeirra sem hafa aðgang að bestu gögnunum. Ég treysti því að stjórnvöld þori að bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem þau taka í þessum aðstæðum. Ég treysti mér til þess að vega og meta það af sanngirni eftirá, hvort um viðeigandi viðbrögð var að ræða eða ekki. Það eru stjórnmál sem við þurfum í dag.
Höfundur er þingmaður Pírata.