Stendur ragnar þór við stóru orðin?

Seðlabankinn tilkynnti í morgun um óbreytta stýrivexti, 4,25%. Sú ákvörðun varð formanni VR, Ragnari Þór Ingólfssyni, tilefni til að bölsótast á Facebook-síðu sinni, skrifin hefjast á þessari hótun:


 \"Seðlabankinn, Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld fá hér með aðvörun!
Ef ekki verður látið af gengdarlausu vaxtaokri á íslenska alþýðu og endalausum hótunum um að hækka vexti og verðlag eða fækka störfum, verði kröfum verkalýðshreyfingarinnar mætt um mannsæmandi lífskjör, munum við svara með aðgerðum og hörku sem ekki hafa sést áður á íslenskum vinnumarkaði.\"
 

Nú skulum við rifja upp að Ragnar Þór er formaður værukærasta hóps sem þekkist á íslenskum vinnumarkaði og er í félagi sem einusinni hét Verslunarmannafeálg Reykjavíkur en heitir núna bara VR. Þetta er hópurinn sem nennti ekki að taka þátt í formannskjöri félagsins með þeirri niðurstöðu að formaðurinn var kosinn með atkvæðum um 10% félagsmanna. Samt var það rafræn kosning og þurfti ekki annað en að kveikja á tölvu og opna vef VR til að kjósa.


Það verður afar athyglisvert að fylgjast með hvernig Ragnari Þór gengur að etja þessum værukæra hópi út í aðgerðir og \" ... hörku sem ekki hafa sést áður á íslenskum vinnumarkaði.\" Sérstaklega þegar haft er í huga að upp til hópa eru VR-félagar hálaunafólk, en formaðurinn beinir kröftum sínum og kröfum fyrst og fremst að því að bæta hag þeirra lægstlaunuðu.

rtá