Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir tætir í sig ræðu Katrínar Jakobsdóttur sem hún flutti í Chatham House í London í gærmorgun. Efni ræðunnar var Ísland og „velsældarhagkerfið,“ en Steinunn segir það þýða á stjórnmálamáli að stjórnmálamenn þykist skylja að velsæld almennings sé líka einhvers virði. Steinunn gagnrýnir að Katrín stígi fram sem talsmaður þessarar sjálfsögðu stefnu. Hún segir í pistli á vef Fréttablaðsins:
„Katrín leiðir ríkisstjórn sem sveltir heilbrigðiskerfi, mennta- og samgöngukerfi og aðra nauðsynlega innviði um þúsundir milljóna og mærir fjármálaráðherra sinn sem rekur ríkissjóð eins og um fjárfestingarsjóð væri að ræða. Ríkisstjórn sem leiðir vansæld ekki velsæld.“
Þá segir Steinunn á öðrum stað að ríkisstjórnin haldi hlífiskildi yfir bófum sem hafi með ósvífnum hætti rænt samlanda sína og aðrar þjóðir auðæfum sínum og innviðum og beiti engum viðurlögum eða taki ábyrgð. Steinunn segir:
„Velferðarkerfið er líka handónýtt, spyrjið fátækt barnafólk, sjúklinga og öryrkja og tæplega 40% drengja á Íslandi sem geta ekki lesið sér til ánægju eða gagns. Athugið að ólæsi er stjórnmálamönnum afar gagnlegt, því ef þú skilur ekki hvernig kaupin gerast á eyrinni, þá geturðu ekki varið þig og þína. Hvert fara skattarnir okkar gott fólk?“
Þá tengir Steinunn þá miklu notkun á þunglyndislyfjum megi rekja til hvernig elítan og stjórnmálamenn koma fram við fólkið í landinu. Steinunn segir:
„Þunglyndi stafar af mörgum ástæðum en þegar fólk getur ekki verið öruggt um að geta tryggt sér og sínum viðunandi lífsskilyrði, því ríkisstjórnin kemur raunverulega í veg fyrir það, þá grefur það undan tiltrú manneskjunnar á sig sjálfa og hún verður þunglynd.“
„Í samfélagi þar sem auðsöfnun og ríkidæmi nýtur virðingar og lotning og þöggun umlykur spillingu verður fólk þunglynt, því framferði þeirra fáu sem auðgast, bitnar á mörgum og veldur hjá þeim skömm, reiði og vanlíðan.
Í ríkisstjórn sem stöðugt ver rétt hinna fáu til að haga sér eins og innviðir samfélagsins séu spilapeningar í Matador verður fólk þunglynt. Það er þunglyndisvekjandi að vita betur, en vera stöðugt sagt að maður hafi rangt fyrir sér. Að gildismat manns sé stöðugt sagt einskis virði, er heilaþvottur og þarmeð ávísun á geðveiki.“
Þá segir Steinunn í lok pistilsins:
„Ég ætla að enda þessa grein á orðum Katrínar sjálfrar í lauslegri þýðingu minni, besta orwelíska tvítal (eng. doublespeak) sem sést hefur lengi: „Fyrir okkur stjórnmálamenn þar sem eilífðin er bundin við okkar stjórnarsetu (sem getur verið ansi stutt í sumum löndum!) er samt hollt að ímynda sér að þurfa að standa fyrir svörum barnabarna sinna og jafnvel barna þeirra. Og ef þau spyrja: „Afhverju björguðu þið ekki jörðinni?” Þá vil ég ekki svara:
„Afþví að við ákváðum frekar að bjarga kapítalismanum í þeirri mynd sem við þekktum hann.“
Pistilinn má lesa í heild sinni hér.