Fyrrverandi borgarfulltrúinn og baráttukonan Sóley Tómasdóttir, gerði grein Stefáns Ólafssonar, sérfræðings hjá Eflingu og prófessor í félagsfræði við HÍ, að umræðuefni á dögunum.
Í greininni kemur Stefán Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, til varnar og gagnrýnir um leið Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Sóley segir grein Stefáns einkar athyglisverða. Samkvæmt honum eigi hún að styðja Sólveigu Önnu þar sem hún sé öflug talskona láglaunakvenna og ekki láta það þvælast fyrir sér þó hún geti verið beinskeytt og hvöss.
Hún tekur undir með Stefáni og segir Sólveigu Önnu gagnrýnda oftar, harðar og persónulegar en karlkyns forverar hennar og samstarfsmenn – það eigi við um allar konur sem taki sér pláss í karllægum geirum. Það sé ósanngjarnt og taki á. Hins vegar séu skrif Stefáns þó mikil einföldun á raunveruleikanum.
„Femínistar eru nefnilega ekki einn hópur með eina skoðun. Feminísk hugmyndafræði er flókin og margþætt. Hún býður upp á sjónarhorn, baráttuaðferðir og leiðir. Þó femínistar eigi það sameiginlega markmið að uppræta karllægt valdakerfi, þá er ekki hægt að krefja alla femínista um að finnast eitthvað, beita sér fyrir einhverju eða styðja einhverja,“ skrifar Sóley.
Leik- og fjölmiðlakonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir svaraði skirfum Sóleyjar á Facebook um helgina þar sem hún endurbirtir gömul skrif hennar og hæðist létt að henni.
„Þessi gamla Vísisgrein þarfnast endurbirtingar og ekki síst í ljósi skrifa Sóleyjar Tómasdóttur á hennar einkavef um það afhverju Sóley telur það óráðlegt jafnvel varasamt að styðja Sólveigu Önnu.
Þeim skoðunum deila reyndar fleiri konur sem kalla sig feminista. Ég mæli með að fólk lesi grein Sóleyjar um ,,feminíska samstöðu” þó ég nenni ekki að hlekkja á hana og bið ykkur að dæma sjálf. það er ávísun á hláturskast En rifjum þessa frétt upp til afhjúpunar og yndisauka,“ skrifar Steinunn.